20.12.1946
Neðri deild: 44. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að undanfarið hafa staðið miklar umræður um útlit og horfur á málefnum bátaútvegsins. Útvegsmenn hafa haldið fundi og gert ályktanir, og telja þeir ástandið mjög ískyggilegt. Þetta mál hefur einnig verið rætt innan ríkisstj. og flokkanna, og er niðurstaðan af þeim viðræðum það frv. sem hér liggur fyrir, flutt af fjhn. þessarar deildar. Höfuðtilgangur frv. er að koma bátaútveginum af stað í vertíðarbyrjun, og er hér lagt til, að sjómenn og útgerðarmenn fái tryggða 65 aura fyrir hvert kg af þorski og ýsu. Það er að vísu lægra verð en útvegsmenn telja sig þurfa, en dugar þó vonandi til þess að koma bátaútveginum af stað. Frv. nær eingöngu til bátaútvegsins og getur þá náttúrlega verið álitamál, hvaða skip eigi að teljast bátar. En aðalreglan mun vera sú, að þau skip komi undir þessi lög, sem ekki geta siglt með afla sinn milli landa. Vegna ákvörðunarinnar um verðhækkun á ferskfiski er svo lagt til, að ríkisstj. ábyrgist hraðfrystihúsunum kr. 1,33 fyrir kg fob. af þorski og ýsuflökum, og saltfiskútflytjendum kr. 2,25 fyrir kg fob. miðað við fullstaðinn stórfisk I. flokks. Þá þótti n. varla hægt annað en hafa möguleika fyrir því, að ríkissjóður ábyrgðist og verð á fiski öðruvísi verkuðum, og er sú heimild veitt í 4. gr. En n. kom saman um, að nauðsynlegt væri, að ríkisstj. héldi mjög varlega á þessari heimild, því að ekki er fært, að menn tækju upp verkunaraðferðir, er gæfu minni arð en hraðfrysting og söltun og vafasamur markaður væri fyrir. Er því í 5. gr. ríkisstj. veitt sú heimild að skipa fyrir um verkun á fiski eftir því, sem söluhorfur eru. Af öðrum verkunaraðferðum en söltun og hraðfrystingu má til dæmis nefna niðursuðu og útflutning á ísuðum fiski til meginlandsins, og gæti komið til mála, að ríkið tæki ábyrgð á einum slíkum farmi í tilraunaskyni.

N. var ljóst, að sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnuvegur okkar að minnsta kosti hvað snertir viðskiptin við útlönd, og kemur ekki til greina, að aðrir atvinnuvegir geti styrkt hann til langframa. En jafnframt því, sem sumar fisktegundir lækka í verði, þá hafa aðrar tegundir sjávarafurða hækkað og hækka líklega enn, en það eru ýmsar síldarafurðir, t. d. síldarmjöl, sem mikil eftirspurn er eftir til skepnufóðurs, og þá ekki síður síldarlýsi. Heimurinn verður í nokkur ár að ná sér eftir styrjöldina og þó lengst um framleiðslu feitmetis. Vonin um hækkandi verð á síldarlýsi byggist á því, að vitað er um, að mikill feitmetisskortur verður á næsta ári og samkeppni milli þeirra, er hungrar í feitmeti. Þegar nú svo stendur á, að sumar fisktegundir lækka í verði, en síldin hækkar, þá liggur fyrir að gera verðjöfnun milli þessara tegunda, því að sjávarútvegurinn getur ekki til langframa vænzt styrks frá öðrum en sjálfum sér. Í 6. grein er því lagt til, að kúfurinn af andvirði síldarafurðanna verði lagður í sérstakan sjóð til tryggingar fyrir ábyrgðum ríkissjóðs á öðrum fisktegundum. Ég skal að þessu sinni ekki nefna neinar tölur, en þeir, sem til þekkja, gera sér góðar vonir um, að ábyrgð þessi muni ekki íþyngja ríkissjóði. Kúfurinn af síldarverðinu er látinn standa undir henni. Við flm., eða meiri hl. okkar, teljum, að með þessum ákvæðum sé sjávarútveginum gerður greiði. Ef verð á síldarafurðum hækkar mikið á næstunni, má búast við því, að raddir heyrist um að leyfa ekki slíka verðbólgu, því að hún nægir til þess að skapa verðbólgu í öðrum greinum, en þá er þetta frv. orðið einskis virði fyrir útgerðina. En með því móti, sem hér er lagt til, er séð um, að útgerðin njóti sinna tekna. Ef svo færi, að afgangur yrði af tryggingarsjóðnum, skal hann ganga til trygginga fyrir síldveiðarnar sjálfar og starfa eftir þeim reglum, sem ríkisstj. setur í samráði við útgerðarmenn og sjómenn. Sumir eru kannske á þeirri skoðun, að Alþ. ætti að ráðstafa þessum sjóði, en það er tæplega formlegt að ákveða í lögum, hvað Alþ. skuli síðar gera, enda getur þingið alltaf breytt þessu ákvæði, þegar það vill.

7. gr. fjallar um auglýsingar viðvíkjandi lögunum og 8. gr. um eftirlit með þeim.

Mér og öllum er það ljóst, að þau úrræði, er þetta frv. felur í sér sjávarútveginum til handa, verða fljótt ónóg, ef ekki eru gerðar alhliða ráðstafanir til að stöðva dýrtíðina. Er því í 9. gr. lagt til, að Alþ. skipi 4 manna nefnd, sem athugi möguleika á stöðvun hennar, og skal hún skila áliti fyrir 1. febr. Með þessu frv. er ekki gert ráð fyrir neinu öruggu framtíðarráði, en það vill nú svo til, að með jöfnuði er hægt að fá útgerðina til að bera sig svo, að sjómenn beri jafnmikið úr býtum og landvinnumenn, og vitanlega ber að hækka verðið til sjómannanna, ef menn halda, að afurðaverðið þoli það. Auk þess jafnaðar, sem gert er ráð fyrir í 6. gr., má einnig gera ráð fyrir jöfnuði milli vertíða og jöfnuði milli ára. Ef það heppnaðist, mætti segja, að heillaspor hafi verið stigið. Skylt er að taka fram, að útgerðin getur ekki notið styrks annarra atvinnuvega, því að það er hún, sem stendur undir fjárhag þessarar þjóðar. En í því kapphlaupi, sem verið hefur undanfarið, þegar hver hefur heimtað sem mest til sín með launahækkunum, þá hafa útgerðarmenn orðið að fá nokkuð sama verð og 1942, og ég get ekki láð sjómönnum, þó að þeir séu sárir þegar kerald kostar nú 60 kr., sem áður kostaði 8 kr., og önnur tæki hafa hækkað að sama skapi.

Miklar vonir standa til þess, að tryggingarsjóður hrökkvi fyrir ábyrgðum ríkissjóðs, en þótt einhver áhætta væri í þetta eina skipti, þarf ekki að telja hana eftir, því að hvergi hefur sjávarútvegurinn verið eins þýðingarmikill og hér og hefur alltaf orðið að standa undir sér sjálfur. En hvað sem öllu liður, þá er það eitt víst, að til langframa þýðir ekki að ætla sér að reka atvinnuvegina öðruvísi en afurðirnar gefi það verð; er svarar framleiðslukostnaðinum.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum að sinni um þetta, en leyfi mér að óska, að hv. d. vísi málinu að lokinni þessari umr. til 2. umr.