20.12.1946
Neðri deild: 44. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Neyðarkall er sent út. Hæstv. ríkisstj., sem búin er að starfa í tvö ár og tveim mánuðum lengur, hefur siglt skútunni upp á sker. Sá aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, sem framleiðir meginhlutann af útflutningsvöru landsins, er stöðvaður vegna þeirrar dýrtíðar og verðbólgu, sem hér hefur þróazt að undanförnu. Þetta gerist þrátt fyrir það, að afurðir atvinnuvega landsmanna eru nú í hærra verði en nokkru sinni áður í sögu landsins.

Svipað neyðarmerki hefur heyrzt áður. Það var líka gefið um áramót, í byrjun þessa árs, og gefin var þá ábyrgð ríkisins fyrir verði á nokkrum hluta sjávaraflans. Nú er einnig gert ráð fyrir slíkri ábyrgð og nú einnig verðjöfnun á sjávarafurðum, ef verð á einstökum vörum fer yfir ákveðið mark. Þetta er að sjálfsögðu engin lausn á vandanum. Hér eru ekki á ferð í þessu frv. neinar raunhæfar aðgerðir til þess að koma atvinnuvegunum á réttan kjöl. Síður en svo. Hér er um að ræða — eins og áður — kákráðstafanir til bráðabirgða sem fullkomið neyðarúrræði. Ef sjávarútveginn þrýtur, þá er engin lind til, til að ausa úr honum til styrktar. En til þessa neyðarúrræðis er gripið, vegna þess að vanrækt hefur verið algerlega að gera nokkrar ráðstafanir í dýrtíðarmálunum, sem leysa vandann raunverulega. Það er komið til Alþ. nú, eins og áður, á síðustu stundu, þegar allt er komið í strand. Og afleiðingin er fálmkenndar ráðleysisráðstafanir, en engar raunhæfar úrbætur.

Í l. nr. 58 frá 3. marz 1945 var ríkisstj. falið að kosta kapps um, að verðlagsvísitalan færi ekki yfir 272 stig. Við vitum, hvernig farið hefur um framkvæmd á þessum lagaákvæðum. Ríkisstj. hefur ekki gert þetta. Hún hefur ekki fylgt þessu fram á Alþ. Vísitalan er nú 34 stigum hærri en hún var, þegar þessi samþykkt var gerð á Alþ. Og með sama áframhaldi verður vitanlega örskammt þangað til útgerðin verður í sömu sporum og hún er nú, þrátt fyrir ábyrgðina, sem með þessum l. er veitt, ef frv. verður samþ. Það er að vísu borin fram nú „fróm ósk“, eins og hv. frsm. fjhn. orðaði það, í 9. gr. þessa frv. um það, að einhverjar lagfæringar verði gerðar á þessu ástandi. En það er engin von um árangur af þeirri frómu ósk, nema alveg verði breytt um stefnu og horfið frá þeirri, sem fylgt hefur verið af núverandi valdhöfum, og breytt um þau vinnubrögð, sem hér er nú, eins og áður, stofnað til og hér hafa verið höfð að undanförnu, að gefa mörgum mönnum tækifæri til að raka að sér meiri tekjum með ýmiss konar aðferðum en þjóðarbúið þolir og greiða einnig mörgum mönnum hærri laun en þjóðarbúið er fært um að borga. En að ætla að halda höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar. útgerðinni, við með ríkisframlagi og hafa einnig þá fjármálastefnu. sem ég nú gat um, að höfð hefur verið, finnst mér ákaflega svipað þeim sandburði, sem talað er um, að oft hafi farið fram á einu heilsuhæli hér í grenndinni.

Það er gert ráð fyrir því nú, eins og áður, að ríkissjóður taki á sig ábyrgðina, þegar allt er komið í strand. Hvernig er hann fær um þetta? Fjárlögin? Á þeim er yfir 20 millj. kr. halli. Hæstv. fjmrh. hefur ekki getað skilað þeim með betri svip en þetta. Það hefði sjálfsagt ekki þurft til þess að koma að grípa til þessara ráðstafana, sem hér er stofnað til, ef skynsamlega hefði verið farið að áður. Það hafa oft legið fyrir þ. till., sem stefnt hafa að raunverulegum aðgerðum í dýrtíðarmálinu. Við framsóknarmenn höfum oft flutt till. um þetta efni. Á síðasta reglulegu Alþ. fluttum við till. um þetta á þskj. 591. Það var í sambandi við frv. um dýrtíðarmál, sem þá lá fyrir. Þar lögðum við til, að sett yrði 5 manna n., þar sem 4 nm. yrðu tilnefndir af þingflokkunum og hagstofustjóri yrði form. n. Verkefni n. átti að vera að gera till. um lækkun dýrtíðar í landinu með þátttöku allra þjóðfélagsstétta, með lækkun á verði innlendra neyzluvara, lækkun kaupgjalds, verzlunarkostnaðar, farmgjalda, byggingarkostnaðar og iðnaðarvara. Jafnframt átti n. að gera till. um það að miða laun og kaupgjald við tekjur þjóðarinnar af vöruframleiðslu. Líka átti n. að gera till. um sérstakt allsherjarframtal eigna í landinu og álagningu skatta á stórgróða, sem orðið hefur hjá skattskyldum aðilum á stríðsárunum.

Þessi till. okkar var felld af ráðamönnum, og till. um sama efni, sem fluttar voru í nóv. 1945 af fulltrúa Framsfl. í fjhn., hafa líka verið felldar. Það hefur sem sagt enginn vilji komið fram enn hjá þeim mönnum, sem ráða, til þess að reyna að koma þessu þýðingarmesta viðfangsefni okkar á heilbrigðan grundvöll. Það hefði átt að vera búið fyrir löngu, og þá hefði verið hægt að losna við þessar bráðabirgða neyðarráðstafanir.

Fyrir tveimur árum var stj. falið að láta reikna út tekjur þjóðarinnar af vöruframleiðslu. Það var að því stefnt með þessu að fá grundvöll til þess að láta byggja á réttlátari tekjuskiptingu í þjóðfélaginu en verið hefur að undanförnu. Fyrstu útreikningana átti samkv. samþykkt Alþingis að birta þinginu og þjóðinni fyrir meira en ári síðan, en ekkert er komið enn.

Ég bar fram brtt. við þetta frv. nú í fjhn. Ég vildi í staðinn fyrir þá gr. í frv., sem er sú 9. og gerð hefur verið að umtalsefni, fá gr. öðruvísi orðaða, og hef lagt fram till., sem nú er í prentun, en ég vil, að stj. geri till. í dýrtíðarvandamálinu í stað n. Ég ætla ekki að ræða þessa till. mína nú, vegna þess að hún kemur fram við 2. umr., en ég tel ekki verjandi að mynda ríkisstj. nú, nema hún taki þetta verkefni í fyrstu röð. Ég hef einnig lagt fram í fjhn. aðra till. um ráðstöfun til frambúðarúrlausnar þessa dýrtíðarvandamáls. Ég hef lagt þar til, að ríkisstj. leggi fyrir Alþingi till. um stöðvun dýrtíðarinnar, sem gætu orðið til framtíðarúrlausnar þessara mála, þannig að framleiðsla geti orðið arðvænleg, og tekjur þeirra, sem að henni starfa, það miklar í hlutfalli við tekjur annarra, að framleiðslan verði eftirsóknarverð.

Þetta yrði með því að finna nýja vísitölu. Hv. meðnm. mínir í fjhn. vildu ekki fallast á að taka þetta ákvæði inn í frv. Með þessari till. og þeirri sem ég flutti fyrir tveim árum og lýst var áðan, er stefnt að réttlátari skiptum á tekjum einstaklinga og stétta, miðað við það, sem þjóðarbúskapurinn gefur af sér. En eyðslan hjá mörgum er meiri en svo, að hún sé í nokkru samræmi við þjóðartekjurnar í heild. Það þarf að vera svo á þessum málum haldið, að hlutur bjargræðisatvinnuveganna verði ekki fyrir borð borinn. Þeir, sem vinna á sjó og landi, þurfa að bera það mikið úr býtum, að framleiðslustörfin verði eftirsóknarverð, og tekjur allra landsmanna þurfa að miðast við afraksturinn af þjóðarbúinu. Ef einstakir menn fá meira en það, leiðir það ekki til hagsældar fyrir þjóðina, heldur til tjóns. Það er ekki hægt að skipta meiri afla en á skipið kemur, en aflanum verður að skipta sanngjarnlega. Með því móti verður fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar tryggt — og þá stjórnarfarslegt sjálfstæði hennar um leið.

Eins og ég sagði áðan, ætla ég ekki nú að gera grein fyrir þeim brtt., sem ég ber fram við frv., en mun ræða um þær við 2. umr., því að eins og fram kom, eru einstakir menn fjhn. óbundnir með tilliti til einstakra atriða frv.