20.12.1946
Neðri deild: 44. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Ég vil lýsa ánægju minni á því, að fjhn. hefur séð sér fært að fallast á öll aðalatriði þess frv., sem ég hafði beðið hana að flytja, og gleðst af því, að svo skuli herfa með þetta mál sem það fái lausn nú fyrir jólin, eða svo – að það komi útveginum að því gagni, sem ætlað hefur verið.

Fjhn. hefur valið þann kost að leggja fram nýtt frv., og verð ég að segja, að ég hef ekkert við það að athuga, ef hún telur það einhverra hluta vegna réttara. Fyrir mér vakir aðallega, að þingmeirihluti sé til fyrir þessari ábyrgð, til þess að vandamál sjávarútvegsins verði örugglega leyst, enda standa vonir til þess frá útvegsmönnum almennt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Ég hef talsvert rætt um þetta áður, þegar umr. fór fram um það frv., sem ég lagði fyrir fjhn., og vísa ég til þess, sem ég sagði þá, hvað rökin snertir. En ég vil ræða um atriði, sem fjhn. hefur sett inn í og ég tel vafasamt.

Í fyrsta lagi er það 6. gr. Þar er ákveðið, að útflutningsgjald skuli greiða af því síldarverði, sem verður yfir kr. 40.30. Það er bundið við, að síldarverðið megi ekki hækka um meira en 30%. Það er ætlazt til að mynda með þessu sjóð, sem ríkissjóður á að hafa tiltækilegan, þegar einhver áhætta er. Það er ekki vitað, hve mikið veiðist af síld, en samt má gera ráð fyrir, að með þessu sé dregið úr áhættu ríkissjóðs. En ég vil segja það, að mér sýnist hér óheppilega að farið. Ég tel, að það verði að taka tillit til þess, hvernig útvegurinn hefur gengið á þessum tveim síðustu árum. Um tvær undanfarnar síldarvertíðir er það að segja, að önnur var afleit og sú síðari í lakara meðallagi — hvað marga báta snerti töluvert fyrir neðan meðallag. Sjómenn hafa og þurft að ganga í gegnum lélega síldarvertíð. Það er vitanlegt, að sjómenn og útvegsmenn vilja haga þessum málum þannig, að allir hafi sem bezt af, en hér er of langt farið, að stj. bindi því skilyrði ábyrgðina fyrir fiskverðinu, að svo og svo miklu af síldarverðinu sé haldið eftir. Það er neyðarúrræði að þurfa að taka af einni grein atvinnuveganna til þess að létta undir með annarri. Það getur orðið nauðsynlegt að gera þetta, en það hefur ekkert komið fram enn þá, sem geri slíka ráðstöfun nauðsynlega. Öllum er það ljóst, að þegar til kemur að selja, verður salan á einu bretti, þ. e., þegar við bjóðum fisk okkar til sölu, munum við nota síldarlýsi okkar til þess að skapa okkur aðstöðu til þess að þvinga menn til að kaupa fiskinn. Með þessu móti skapast nokkurs konar verðjöfnun milli þessara vörutegunda, en sú verðjöfnun er ekki nema það, sem allir myndu ganga inn á. Ef við komum til Breta eða Rússa og segjum: Við bjóðum ykkur síldarlýsi gegn því, að þið kaupið svo og svo mikið af ísfiski, segir það sig sjálft, að þetta er óbein verðjöfnun. Það er ekki hægt að komast hjá því, og það er verðjöfnun, sem ég veit, að síldarútgerðarmenn mundu sætta sig við, vegna þess að þeim er ljóst, að þjóðin bjargast ekki, þó að hún geti selt síldarafurðirnar góðu verði, ef ekki er markaður fyrir fiskinn. En sem sagt, nú liggur það ekki fyrir, hvort slíka ábyrgð þurfi. Við erum fyrst og fremst að skuldbinda síldarútveginn til þess að standa undir fiskútveginum.

Í fyrra var gengið í ábyrgð. Þá datt engum í hug að binda hana við síldarverðið, þó að þá liti út fyrir, að það mundi hækka. Það datt engum í hug. Þetta var áhætta, sem ætlazt var til, að ríkissjóður tæki á sig, og það voru engin ákvæði um það, hvernig skyldi afla þess fjár, sem með þurfti, heldur var bara þetta sjónarmið látið ráða: Þetta verður að tryggja. Sama sjónarmið er fyrir hendi nú. Ég hefði því talið heppilegra að binda sig eingöngu við það, sem fyrir liggur, sem er fiskverðið. Síðan verði teknar upp fjáröflunarleiðir, ef til vill með verðjöfnun síðar.

Það var bent á það af hv. þm. V-Ísf., að sjávarútvegurinn gæti ekki vænzt þess að fá stuðning annarra atvinnugreina. Þetta er rétt að nokkru leyti. En það er annar atvinnuvegur, sem byggir á útveginum. Það er verzlunin, sem skilar miklu meiri arði en sjávarútvegurinn. Þess vegna er eðlilegt, að verzlunin verði fyrst og fremst að taka skakkaföllunum, þegar útgerðin þarf hjálpar með. Verzlunin hagnast mest og hefur hagnazt mest og mun hagnast mest á þeim gjaldeyri, sem verið er að skapa með þeim tryggingum, sem felast í þessu frv. Hvað er eðlilegra en að þessi atvinnuvegur verði látinn standa undir þessari áhættu að nokkru leyti, áður en til þess kemur, að farið sé að leita á síldarútveginn, eins illa og hann er kominn? Ég býst við, að útkoman á síldarútveginum verði þannig, að í bezta falli komi hann skaðlaus út úr þeim vertíðum, sem gengið hafa yfir hann, og má segja, að honum veiti ekki af, ef hann gæti fengið hærra verð. Það er líka annað atriði, sem er þýðingarmikið. Útvegsmenn á Norðurlandi stunda meira síldarútveg en vetrarvertíð, og af því leiðir, að ósanngjarnt er, að þessi hluti sjávarútvegsins sé látinn greiða hingað suður, og verðum við að gæta þess, að þarna er ósamræmi. Ég býst við, að mörgum af þeim mönnum, sem hafa byggt á síldarútveginum undanfarið og hafa orðið fyrir skakkaföllum, þyki nærri sér höggvið, ef það á að láta þá verða ábyrgðarmenn fyrir þeim skakkaföllum, sem nú kunna að verða.

Eins og ég gerði grein fyrir við umr. fyrsta frv., sem minni hl. fjhn. flutti fyrir beiðni mína, eru horfur á því, að hægt sé að selja á svo góðu verði, að um tiltölulega litlar uppbætur verði að ræða, en eftir því, sem talað er um síldarverðið, er ekki um neina smáræðis fúlgu að ræða, sem á að setja í þennan sjóð, og það er í alla staði óviðunandi að vera að taka fé af útgerðinni eins og stendur.

Ég hef talað við marga útgerðarmenn um þetta., og þeir segja: „Við erum ekki á móti verðjöfnun, en við erum á móti því, að það sé fyrir fram ákveðið, að síldarútvegurinn skuli standa straum af þessu.“

Ég tel of langt gengið að binda síldartekjurnar við fiskveiðarnar og vil leggja til, að þessi 6. gr. verði lögð niður. Það er engin þörf á þessari till. nú og hún er ákaflega ósanngjörn. Það er ekki hægt að neita því, að þetta eru þeir atvinnuvegir, sem við byggjum á, og þeim er skyldast að greiða í þennan sjóð, sem hafa hagnaðinn af því að flytja inn vörur fyrir þann gjaldeyri, sem útvegurinn gefur af sér. Það er ósanngirniskrafa, að þessi atvinnuvegur sé fyrst og fremst látinn taka á sig ábyrgðina.

Ég benti á það í ræðu minni síðast, að niður hefur verið felldur veltuskattur á verzlun. En ég er þeirrar skoðunar, að veltuskatturinn mundi gera meira en að greiða þá áhættu, sem er í sambandi við það, sem er í þessu frv. Við verðum því að athuga, að þetta er skattur, sem hefur verið innheimtur og eðlilegt var að væri á lagður og er sjálfsagður til slíkra hluta, áður en gripið er til annarra ráðstafana.

Þessar till., sem felast í 6. gr., eru forsmán. Í þeim felst, að þ. forsmál þá örðugleika, sem útgerðin á við að stríða. Það þarf að koma fram núna, að þjóðin geri sér ljóst, hvað við eigum mikið undir sjávarútveginum og að þjóðin geri sér ljóst, að hún verður að sjá svo um, að sjávarútvegurinn geti gengið. Fyrst þegar þjóðinni er þetta ljóst, getur komið til mála að fara í aðra eins verðjöfnun og hér er gerð till. um. En þegar það er komið á daginn, ef svo verður, að þjóðinni er um megn að gera þær ráðstafanir, sem þarf til þess að tryggja sjávarútveginn, þá fyrst finnst mér koma til mála að gera aðra eins jöfnun og hér er gert ráð fyrir að gera. Hvernig fer t. d., ef næsta síldarvertíð verður annaðhvort í meðallagi eða undir því? Þá sér maður, hve óforsvaranlegt er að ætla að taka einhvern hluta af því verði, sem síldarútgerðin fengi, þegar líka það er haft í huga, að Alþ. gerði ráðstafanir til þess að hjálpa útgerðarmönnum eftir síldarleysisárið 1945, til þess að þeir gætu haldið áfram útgerð, en yrðu ekki að láta af hendi báta sína upp í skuldir. Þetta eru sem sagt óeðlilegar og ósanngjarnar ráðstafanir, sem ég veit, að muni mæta mjög mikilli andspyrnu hjá útgerðarmönnum, vegna þess að það sér hver einasti maður, að hér er ekki haldið á málum af neinni sanngirni. Það er í fyrsta lagi ekki þörf á að gera þessar ráðstafanir nú, vegna þess að það er ekki vitað, að það komi til útgjöld fyrir ríkissjóð vegna þessarar ábyrgðar. Það er ekki heldur vitað, hvort hægt kynni að vera að fá þetta fé inn, sem til kynni að þurfa að taka til að greiða verðmismun á útflutningsvörum sjávarútvegsins, frá þeim aðilum, sem meiri skylda ber til þess að leggja nú eitthvað af mörkum til þess að létta undir með sjávarútveginum, eftir þann gróða, sem þeir hafa getað aflað sér fyrir þann gjaldeyri, sem þeim hefur verið úthlutað og sjávarútvegurinn hefur skapað. — Ég tel þess vegna, að hvernig sem á þetta mál er litið, sé það langréttasta, sem hægt sé að gera, að fella þetta ákvæði algerlega niður úr frv., og gera það með þeirri vissu, að það verði ekki farið inn á svona brautir fyrr en aðrar leiðir eru útilokaðar. — Það er vitað, að svo er komið fyrir síldarútveginum, bæði einstaklingum, sem hann hafa stundað, og ýmsum verksmiðjum, sem starfa að honum, að síldarútvegurinn þarf að fá tækifæri til að rétta sig við aftur eftir taprekstur. Það er nú einnig búið að byggja síldarverksmiðjur á vegum ríkisins, sem kosta um 38 millj. kr., og þetta er fimmfaldur byggingarkostnaður á við það, sem var fyrir stríð. Þessi kostnaður stafar líka mikið af því, að hraðað var byggingu þeirra, svo að hægt væri að starfrækja þær á síðast liðinni síldarvertíð. En síldin brást á síðustu vertíð, sérstaklega í ágústmánuði, þannig að ekki var hægt að afla síld fyrir þessar verksmiðjur. En verði gott síldarár næst, er óráðnauðsynlegt að greiða þessar verksmiðjur niður, vegna þess að það er ein af ráðstöfunum til þess að búa okkur undir þann tíma, sem við búumst við, að sé framundan, að verð á afurðum okkar lækki. Og það er í raun og veru fyrsta og eðlilegasta ráðstöfunin, sem hægt er að gera viðvíkjandi þessum verksmiðjum.

Öllum er líka ljóst, að svo er um nokkurn hluta flotans, sérstaklega skip af meðalstærð, að síðan ísfisksmarkaðurinn lokaðist í Englandi, hafa eigendur þessara skipa lítið með þau að gera til annars en til síldveiða. En þetta eru hins vegar beztu síldveiðiskipin, 70–120 lesta skip, og þau hafa ráðið því, hvort síldarvertíðir okkar hafa verið góðar eða slæmar. Þessi skip hafa því verið ákaflega þýðingarmikil fyrir síldveiðarnar. En þeir, sem hafa rekið þau, hafa fengið á sig tvær slæmar síldarvertíðir í röð og fiskleysi í sambandi við ísfiskveiðar. Þeir, sem þau gera út, þurfa því að geta rétt hag þeirrar útgerðar aftur, eftir þessi slæmu ár fyrir útgerð þeirra. — Erfiðleikar eru nú líka fyrir báta um að komast að því að geta fengið viðlegupláss á vetrarvertíðinni. Þessir bátar, sem komust ekki að hér syðra á vetrarvertíðinni, voru um 15, en má þó búast við, að auðið muni verða að koma mörgum þeirra að. Það er óneitanlega hart að gengið að ætlast til þess, að þessir bátar, sem komast ekki að um að fá viðlegupláss, eigi að taka á sig nokkrar greiðslur, til þess að hægt sé að halda uppi þeim útvegi, sem framkvæmdur er á vetrarvertíðinni, sem þeir hafa ekki einu sinni aðstöðu til þess að stunda sjálfir.

Hvernig því sem á þetta mál er litið, þá er allt, sem mælir á móti því, að við tökum þessi ákvæði inn í l., sem í 6. gr. frv. felast. Og allt mælir líka, á móti því að hafa það ákvæði, ef um væri að ræða að setja eitthvað slíkt í l., í því formi, sem hér er gert ráð fyrir. Ég tel, að ekkert slíkt geti komið til greina fyrr en séð er að fullu, hvaða útgjöld það muni í fyrsta lagi kosta fyrir ríkissjóð að samþ. þá ríkisábyrgð á verði framleiðsluvara bátaútvegsins, sem í þessu frv. er gert ráð fyrir, og í öðru lagi, hvernig afkoman verður almennt hjá bátaútveginum. Og ef inn á svona brautir verður farið, er það ákaflega vandasamt mál að ákveða, við hvaða verð á að miða, þegar ákveðið er um greiðslur til þessa tryggingarsjóðs. Ég hygg, að það að binda síldarverðið við 40 kr. málið sé í fyllsta máta ósanngjarnt og sé hlutur, sem útvegsmenn muni alls ekki sætta sig við. Það má að vísu segja það, að þótt þetta sé samþ. hér í þessu frv., megi alltaf taka þetta mál til athugunar á ný, þegar komið er á daginn, hvers með þarf í þessum efnum. En ég held, að bezt sé fyrir alla aðila, að þetta sé fellt niður nú og að ekki sé vakið máls á þessu nema í samráði við útvegsmenn sjálfa, eftir að búið er að sjá eitthvað frekar um það, hvernig verður um afkomu okkar útgerðar og nauðsynina á að veita bátaútveginum stuðning endanlega. — En það er fullkomið réttlætismál nú, að það verði fleiri aðilar en sjávarútvegurinn, sem taka á sig þá hættu, sem því er samfara að veita bátaútveginum þessa ábyrgð um verðtryggingu, sem lögfesta á með þessu frv.