20.12.1946
Neðri deild: 44. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ýmsar aths. hafa nú verið gerðar við þetta frv., sem hér liggur fyrir, og hafa ýmsir borið fram brtt. við það, en sumir flm. hafa frestað brtt. til 2. umr., og hygg ég, að aðrir geri það einnig. Gæti þá d. afgr. málið fljótt til 2. umr., og milli umr. gæti svo flm. rætt málið enn og reynt að ná samkomulagi um framkomnar brtt. Ég mun ekki ræða þessar till. fyrr en við 2. umr., og mun ekki heldur ræða dýrtíðarmálin almennt, enda er okkur flm. ljóst, að hér er einn þáttur dýrtíðarmálanna tekinn út úr.

Hvað viðvíkur stjórnarmyndun, þá var það vissulega verkefni 12 manna n., en ekki fjhn., að mynda stjórn. Af þeim aths., sem fram hafa komið við frv., ber mest á aðfinnslum við 6. gr., en ég tel, að hún sé bæði réttmæt og nauðsynleg, eins og ég hef áður fært rök fyrir. Ég held, að engin ríkisstj. þurfi að kvíða með 65 aura tryggingarverði á fiski og 40 kr. á síldarmálið. En ef útgerðin getur ekki borið sig með þessu verði, þá er framtíðin ekki björt. Einn aðalgrundvöllur jöfnunarákvæða 6. gr. er, að sjómenn fái hækkandi kaup til jafns við landmenn. Þá skapast enginn grundvöllur fyrir landmenn að gera auknar kaupkröfur, sem að öðrum kosti mundi óhjákvæmilega verða, ef kaup sjómanna hækkaði, og slíkt kapphlaup yrði útgerðinni stórum verra en jöfnuður milli veiðigreina, enda er það útgerðinni til einskis gagns, þó að síldarverðið hækki, ef sú hækkun skapar um leið hækkandi verðbólgu.

Ég skal á þessu stigi ekki fara lengra út í þetta, en áður en ég lýk máli mínu, vil ég undirstrika, að alls staðar þar, sem ríkisstj. er nefnd í frv., er átt við hana í heild, en ekki einstakan ráðherra. Það er hægt að framkvæma lögin af einum ráðh., en ekki fyrr en hann hefur ráðgazt við meðráðh. sína. Er því í þessu frv. alls staðar átt við alla ríkisstj.

Skal ég svo ekki hafa þessi orð mín fleiri að sinni.