20.12.1946
Neðri deild: 44. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það voru aðeins fá orð út af ræðu hæstv. atvmrh. — Hann sagði, að nauðsynlegt væri að lækka nýju síldarverksmiðjurnar. Þetta er alveg rétt, því að nýju síldarverksmiðjurnar eru dýrar, en svo fór ráðh. að litast um, hvar hægt væri að fá fé til þess, og þá kom hann fyrst auga á veltuskattinn. Sá skattur er þekktur, og það ekki að góðu. Hann kom að verulegu leyti niður á almenningi eða því fólki, sem verzlar í samvinnufélögunum. Hæstv. stjórn hefur þrengt mjög hag þessara félagssamtaka fólksins, en þrátt fyrir það hafa kaupfélögin enn mikil viðskipti, og enginn þarf að láta arðræna sig í verzlun. En á alla þá, sem kaupa vörur, leggst veltuskatturinn, og þyngst á þá, sem flesta hafa á framfæri sínu. Af því má sjá, hversu óréttlátur hann er. Þegar hæstv. atvmrh. og flokkur hans telja sig vera að berjast fyrir hag launþega og hagsbótum þeim til handa. gætir nokkurs ósamræmis að byrja á að leggja veltuskatt á þessa sömu menn ofan á húsaleiguokrið, þegar seðja þarf verðbólguhítina. Þessi aðferð hæstv. ráðh. og flokksbræðra hans er ekki ósvipuð starfsemi, sem tíðkast á spítala hér í grennd, þar sem menn eru látnir bera sand. Ráðh. virðist vera á þessu sandburðarstigi enn þá.

Raunir hafa ekki enn

yfirgefið þjóð og land,

því að okkar æðstu menn

ætla að bera meiri sand.