20.12.1946
Neðri deild: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1405)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Fjhn. hefur haldið fund um þær till., sem fyrir liggja, en ég hef engin skilaboð að flytja frá henni í heild, því að nokkur ágreiningur er um allar till. Hins vegar hefur borizt bréf frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, sem hljóðar svo:

„Vér leyfum oss hér með að senda háttvirtri fjárhagsnefnd neðri deildar Alþingis eftirfarandi ályktun, sem gerð var á fulltrúaráðsfundi L. Í. Ú. í dag (20. desember) í sambandi við frv. það, er nú liggur fyrir Alþingi um ríkisábyrgð og tryggingarsjóð vegna vélbátaútvegsins, svo hljóðandi:

„Fulltrúaráðsfundur Landssambands íslenzkra útvegsmanna, haldinn í Reykjavík 20. des. 1946, lýsir fylgi sínu við framkomið frv. á Alþingi um ríkisábyrgð og tryggingarsjóð vegna vélbátaútvegsins, flutt af fjárhagsnefnd neðri deildar Alþingis, enda þótt fundurinn óskaði eftir, að frv. væri að ýmsu leyti á annan veg og vill í því sambandi taka fram eftirfarandi:

1. Fundurinn lítur þannig á, að frv. muni ekki ná fullum tilgangi, nema Alþingi komi sér saman um að stöðva dýrtíðina í landinu.

2. Fundurinn telur miður, að frv. skuli ekki ná til allra starfsgreina sjávarútvegsins, svo sem botnvörpuskipa o. fl., og treystir því, að Alþingi og ríkisstj. skapi viðundandi starfsgrundvöll fyrir þær greinar sjávarútvegsins, sem ekki eru teknar inn í frumvarpið.

3. Fundurinn telur ákvæði 6. gr. frv. um verðjöfnun milli síldar- og annarra sjávarafurða mjög vafasöm, og treystir því, að einskis verði látið ófreistað til að koma í veg fyrir, að grípa þurfi til slíkrar verðjöfnunar. Hins vegar telur fundurinn mjög eðlilegt, að myndaður verði tryggingarsjóður útvegsins til þess að mæta örðugleikum aflaleysisáranna.“

Þetta eru aths. við frv., án þess að gerðar séu nokkrar tillögur til breytinga. En „auk þess samþykkir fundurinn að fara þess á leit við fjhn. neðri deildar Alþingis, að hún flytji svo hljóðandi brtt. við frv.:

„Meðan umræður og samningar fara fram skv. 1. mgr. 9. gr., skal vísitala og grunnkaup haldast óbreytt, enda greiði ríkissjóður á meðan þá hækkun, sem verða kann á dýrtíðarvísitölunni vegna hækkaðs fiskverðs“

N. sem heild flytur ekki þessa till. vegna þess, að menn gátu ekki orðið sammála um hana.

Ég hef ekki meira að segja að þessu sinni, en þm. munu gera grein fyrir sínum brtt.