20.12.1946
Neðri deild: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég á hér brtt. á þrem þskj. sem minni hl. fjhn.: 248, 252 og 253.

Ég ætla fyrst að lýsa nokkrum orðum brtt. á þskj. 252. Hún er um það, að ný gr. bætist framan við 1. gr., um það, að fyrir 1. febr. næstkomandi skuli ríkisstj. leggja fyrir Alþ. till. um stöðvun dýrtíðarinnar og þær ráðstafanir, sem nægja til þess, að framleiðslan geti orðið arðvænleg og tekjur þeirra, sem að henni starfa, það miklar í hlutfalli við tekjur annarra, að framleiðslustörfin verði eftirsóknarverð. Það er vitanlega það, sem þarf að gera, að gera framleiðsluna arðvænlega. svo að ekki þurfi að koma til ríkisábyrgðar eða verðjöfnunar úr ríkissjóði. Þetta vil ég láta koma fyrir 9. gr. frv. eins og hún nú er. Samkvæmt 9. gr. er gert ráð fyrir að kasta þessum vanda í bili frá hinni væntanlegu nýju ríkisstj., sem menn vona að komi fljótlega, og yfir á 4 manna n. Þetta finnst mér óeðlilegt, vegna þess að það á að vera fyrsta verkefni hinnar væntanlegu stj. og hún á í raun og veru að vera mynduð um það fyrst og fremst að koma þessum vandamálum í viðunandi horf. Eins og ég hef tekið fram áður, við 1. umr. þessa máls, tel ég óverjandi að mynda ríkisstj., nema hún þegar í upphafi geri nauðsynlegar ráðstafanir í þessu efni.

Í samræmi við þessa brtt. flyt ég á þskj. 253 till. um það, að ábyrgðin verði afgreidd í heimildarformi til ríkisstj., en ekki sem bein ákvörðun Alþingis. Ég byggi þetta á því, að ef stj., sem væntanlega kemur mjög fljótlega, gæti gert viðunandi ráðstafanir í þessu máli þegar í upphafi — og áður en til ábyrgðarinnar þarf að taka —, þyrfti ekki að nota ábyrgðina og stj. gæti horfið frá því, ef henni virtist það óþarft. Ég tel heppilegra, að hún væri í þessu formi heldur en bein fyrirmæli þ., enda í samræmi við venju þ., því að venjulega er þetta í því formi, að stj. er heimilað að ábyrgjast það, sem um ræðir hverju sinni. Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum.

Þá er það till. á þskj. 248. Hún er um það, að líka verði tekin ábyrgð á útflutningsverði landbúnaðarafurða, eftir því sem til þarf til þess að framleiðendur fái fyrir þær vísitöluverð, en það er þó fram tekið í síðari mgr. þessarar till., að ákvæðið komi því aðeins til framkvæmda, að greiða þurfi fé úr ríkissjóði vegna ábyrgðarinnar á fiskverðinu. M. ö. o., ef ekki þarf að greiða vegna ábyrgðar á fiskverðinu, er ekki ætlazt til, að greitt verði vegna landbúnaðarafurða, en þurfi að greiða með fiskverðinu, tel ég með öllu óviðunandi, að ekki sé greitt fyrir landbúnaðinn líka.

Ég tel ekki rétt að gera upp á milli atvinnuveganna. Með opinberum ráðstöfunum hefur bændum verið skammtað lægra verð innanlands en þeir þurfa að hafa til þess að hafa tekjur sambærilegar við það, sem aðrir menn í landinu hafa, og ef þessi ríkisábyrgð á fiskverðinu verður samþ., þá mun ósamræmið fara vaxandi, ef landbúnaðurinn verður undanskilinn, því að þá kemur þar fram 30% hækkun á fiskverðinu frá því síðastliðið ár. svo að ósamræmið hlýtur að vaxa enn bændum í óhag. Ég vænti þess því, að þessari till. minni verði vel tekið af þinginu.

Ég skal geta þess um þá till., sem ég minntist fyrst á, á þskj. 252, að það komu fram raddir um það í fjhn., að verið gæti, að einstakir nm. aðrir en ég vildu taka til athugunar t. d. milli 2. og 3. umr., hvort þeir gætu fallizt á þá till. mína, svo að ég geri ráð fyrir að taka hana aftur til 3. umr., þar sem ég tel ekki vonlaust, að einhverjir fleiri nm. kunni á hana að fallast við nánari athugun málsins.

Þá vildi ég minnast á brtt., sem fyrir liggur á þskj. 254 og gerð hefur verið grein fyrir. Ef hv. þm: Borgf. (PO) mætti heyra mál mitt. vildi ég spyrja hann, hvort hann gæti á það fallizt að taka aftur brtt. sína við 6. gr., því að ég get búizt við, að till. komi fram um sama efni. (PO: Ég get orðið við því.) En um till. hans á sama þskj., viðbótina við 9. gr., er það að segja, að till. þessi er ófullnægjandi, þar sem margar ráðstafanir þarf að gera. En þar sem till. er ætluð til bráðabirgða og ríkisstj. hefur í hendi sér að sjá um, að vísitöluhækkun verði ekki um svo stuttan tíma, munum við framsóknarmenn greiða atkv. með þessari till. hv. þm. Borgf.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég hef ástæðu til að segja um þessar brtt.