20.12.1946
Neðri deild: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Hermann Guðmundsson:

Ég finn mig knúðan til að standa hér upp og mótmæla brtt. frá hv. þm. Borgf. (PO). Hann flytur brtt. á þskj. 254, þar sem hann vill binda vísitöluna við það, sem hún nú er, 306 stig, og verði hún hærri, skal verkalýðurinn í landinu ekki hljóta neina uppbót. Þótt ég viðurkenni þá staðreynd, að vísitalan er komin mjög hátt nú og atvinnuvegir landsins eru komnir á heljarþröm vegna dýrtíðarinnar, verð ég að láta þá skoðun mína í ljós, að sú dýrtíðarvísitala, sem verkalýðurinn hefur fengið laun sín greidd eftir, hefur ekki verið rétt. Hún hefur ekki verið í samræmi við þá dýrtíð, sem verið hefur, þannig að frekari skerðing er frá mínu sjónarmiði algerlega óverjandi. Það er líka gert ráð fyrir, að ef vísitalan lækki, skuli verðlagsuppbót lækka að sama skapi. M. ö. o. að verkalýðurinn skuli ekki fá hækkun á kaup sitt, en aðeins lækkun. Ég lít á þessa till. sem beina árás á verkalýðinn í landinu og skora á d, að fella hana.