20.12.1946
Neðri deild: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er sérstaklega í sambandi við till. á þskj. 254, sem ég vildi segja nokkur orð. Það var meiningin, þegar fjhn. beitti sér fyrir þessu frv., að reyna að koma útgerðinni af stað. Tilgangurinn var, að farið yrði að vinna að útgerðinni, svo að hún gæti gengið í vetur. Það er þess vegna undarlegt að sjá fram komna till, um að stöðva útgerðina og ætlast til, að hún sé samþykkt.

Þessi till. fer fram á að afnema alla kaupsamninga í landinu og setja nokkurs konar gerðardóm án þess að gera ráðstafanir til þess að Alþ. hafi vald til að framkvæma hann. Þannig að með þessu er verið að sjá svo um, að ekkert verði úr útgerð í vetur, að hún stöðvist vegna þess, að verkalýðurinn mundi ekki sætta sig við slíkar ráðstafanir. Það er þess vegna mjög undarlegt, að það skuli koma fram till. um að lögfesta kaupið — og það þegar bæta á kjör sjómanna og útgerðarinnar. Ég held þess vegna, að það sé alveg rangt í það farið hjá hv. þm. Borgf. (PO), þegar hann lætur sér detta í hug að koma með svona till. Og þetta er því undarlegra sem þessi till. hans miðast eingöngu við eitt, — ekki stöðvun dýrtíðarinnar og vísitölunnar, heldur eingöngu við að stöðva uppbætur á launum og kaupgjaldi. Þeir, sem framleiða og selja, mega hækka sínar vörur. Þeir eiga að fá að halda sínum gróða. En þeir, sem halda uppi starfseminni í landinu, þeirra laun á að skerða. Ég hélt, að hv. þm., jafnt hv. þm. Borgf. (PO) og aðrir, væru búnir að fá meira en nóg af að reyna að kveikja eld í landinu á þeim tíma, sem þjóðin hafur reynt að sameinast um verkefnin.

Sem sagt, þetta frv. er flutt til þess að reyna að koma útgerðinni af stað, og þess vegna á ég bágt með að skilja þessa till. Það er verið með þessu að reyna að tryggja sjómönnum hækkun úr 45 aurum upp í 65 aura verð. Þykir mönnum þá sanngjarnt, þegar verið er að tryggja sjómönnum heldur betri afkomu en áður, að gera ráðstafanir til þess að lækka kaup annarra manna?

Það hefur nokkrum sinnum borið á góma annan hlut um þessi mál, þegar rætt hefur verið um verðlag í landinu, og það er að beita skarpari verðlagsákvæðum en nú er gert. Það er undarlegt, að þeir, sem finnst sérstakt heillaráð að hætta að borga verkamönnum og öðrum starfsmönnum þjóðarinnar kaup, sem þeir samkvæmt samningum eiga rétt til, skuli ekki vera fylgjandi því að beita verðlagsákvæðunum skarpar en hér er gert. Það hefur hvað eftir annað verið gengið inn á að stórhækka vörur, sem hafa haft stórfelld áhrif á vísitöluna, án þess að tilraun hafi verið gerð til að berjast á móti slíkri hækkun, halda gróða framleiðendanna í skefjum, knýja þá til að breyta framleiðsluaðferðum sínum í skynsamlegra fyrirkomulag. Síðasta dæmið var brauðahækkunin, sem hækkaði vísitöluna um 2 stig? verðlagsráði barðist fulltrúi sósíalista móti því, að gengið yrði inn á að leyfa þessa hækkun, en fulltrúar allra annarra flokka voru með því að leyfa þessa hækkun. Ef hækkuninni hefði verið neitað, hefði það þýtt það, að þessir menn hefðu verið knúðir til að gera innkaup sín skynsamlegar en áður og haga rekstrinum betur. Sama hefði gilt um framleiðendur. Þeir hefðu verið knúðir til að nota skynsamlegri vinnuaðferðir og þannig knúinn fram raunverulegur framleiðslukostnaður. Sífellt undanlát með hækkað verðlag þýðir það, að allar ástæður, sem framleiðendur hafa til að reyna að koma framförum á sinn atvinnurekstur, falla burt. Það eru eingöngu slíkar harðvítugar breyt. á verðlagsákvæðum, sem geta knúið fram verulegar framfarir í slíkum efnum. En hvenær sem því hefur verið hreyft að beita þessum aðferðum, hefur lítið verið undir það tekið af flokksbræðrum hv. þm. Borgf., og virðist þó full ástæða til að byrja á því að lækka verðlag, m. a. með því að koma á skynsamlegri vinnuaðferðum, ódýrari innkaupum heldur en að þjóta í að lækka á einn eða annan hátt vinnukaup í landinu.

Þeir útgerðarmenn, sem standa með þessu frv., hafa barizt fyrir að fá nauðsynlega hækkun á fiskverðinu, hafa ekki heldur fyrst og fremst viljað ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur. Þeir hafa bent á önnur úrræði í þessu sambandi. Þeir hafa bent á gróða innflutningsverzlunarinnar, ef fé þyrfti að taka til að bæta fiskverðið. Og það virðist ekki fjarri lagi, áður en farið er út í að skerða kaup launamannanna, að hreyfa ofurlítið við heildsalagróðanum. Það er undarlegt, ef menn, sem telja sig fulltrúa fyrir sjávarútveginn og bændur á þessu landi, ætla að byrja á því, eins og mér virðist að sumu leyti vera meining þeirra hv. þm. Borgf. og hv. þm. V-Húnv., að lækka við launamennina og starfsfólk í landinu eða gera tilraun til slíkrar lækkunar, heldur en að hreyfa við heildsalagróðanum, og hafa þó útgerðarmenn ekki skorið neitt utan af því í sínum ályktunum, að þar sé kúfur, sem jafnvel mætti taka af, ef eitthvað þyrfti að gera til að bæta upp hugsanlegan halla af útgerðinni. Ég tel því till. hv. þm. Borgf. á þskj. 254 vanhugsaða, stórhættulega og óframkvæmanlega og að skemmtilegast hefði verið, að hún hefði ekki komið fram. í sambandi við það átak, sem Alþingi verður nú vonandi sammála um að gera til þess að bæta verulega hag útgerðarinnar, tryggja hennar afkomu og leiðrétta og bæta nokkuð þá aðstöðu, sem hlutarsjómenn og fiskimenn yfirleitt hafa haft undanfarið hjá þjóðfélaginu. Ég treysti því þess vegna, að slík till. verði felld, því að hún á að engu heima í því frv., sem hér liggur fyrir, og mun einmitt verða til þess að hindra þann höfuðtilgang, sem vakir fyrir flm. þess, að koma útgerðinni af stað nú þegar.