20.12.1946
Neðri deild: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég á hér brtt. á þskj. 251, aðaltill. og varatill. Ég hef gert þá grein fyrir aðaltill. við í. umr. þessa máls, að ég teldi rangt að láta eina stétt manna, sem sé útgerðarmenn og sjómenn, greiða að öllu leyti þann kostnað, sem verður við að gera þær ráðstafanir, sem frv, þetta beinist að, vegna þess að ég teldi, að hér væri ekki um að ræða ráðstafanir fyrir sjávarútveginn einan, heldur alla landsmenn. Af þeim ástæðum hef ég gert aðaltill. mína um, að 6. gr. yrði felld niður, og yrði þá sá tími, sem þingið hefði til starfa fyrri hluta næsta árs, notaður til þess að finna leið til að greiða halla, sem kynni að verða. Ég tel, að með því að halda þessu ákvæði, þá sé í rauninni ekki verið að bæta kjör útgerðarmanna og sjómanna.

Mér kemur undarlega fyrir sjónir að heyra þau ummæli hv. 2. þm. Reykv. nokkuð endurtekin hér í d., að frv. þetta miði að því sérstaklega að bæta kjör útgerðarmanna og sjómanna. þar sem það virðist ekki miða að neinu öðru en að færa til milli vertíða þær tekjur, sem þessir menn gætu fengið. Ég held, að einhvern tíma hafi hv. 2. þm. Reykv, verið kröfuharðari fyrir aðrar stéttir en fyrir hlutarsjómennina nú.

Ég hef flutt þessa till. sem aðaltill. af þessum ástæðum, sem ég hef nú greint. Hins vegar hef ég, ef þessi till. fengi ekki náð hjá hv. d., flutt varatill., sem ég gerði nokkra grein fyrir við 1. umr. málsins, en þær till. miða að því, að Alþingi með sérstökum ráðstöfunum geri ekki að engu þær vonir, sem hlutarsjómenn og útvegsmenn á síldveiðum hafa gert sér um að fá kjör sín bætt næsta sumar vegna hækkaðs síldarverðs. Eins og kunnugt er, hefur síldveiðin verið rekin með tapi tvö síðastliðin sumur. Þeir, sem síldveiði hafa stundað, hafa ekki borið úr býtum nema 1500 og í hæsta lagi 3000 kr., þegar fæði er dregið frá, og hefði einhverjum öðrum stéttum þótt þetta litlar tekjur tvö sumur í röð í vaxandi dýrtíð í þessu landi. Varatill., sem ég hef flutt við þetta, er við 6. gr. og er á þá leið, að eigi megi innheimta slíkt gjald, fyrr en veiði síldveiðiskips hafi náð meðalafla síldveiðiskips í hverjum flokki árin 1942–1944. Miða ég við það, sem almennt er talið sæmilegt síldarár. Ég tel að ekki sé rétt, að Alþingi gangi lengra í þessu við þessa mjög aðþrengdu stétt, sem hefur borið mjög skarðan hlut frá borði tvö sumur í röð, eins og öllum má vera augljóst.

Í síðari till. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fé því, er innheimt verður af afla hvers síldveiðiskips, skal fyrst og fremst verja til að greiða útgerðarmanni þess halla þann, er hann kann að hafa beðið af útgerð skipsins á síldveiðum á árunum 1945 og 1946, þó þannig, að frá verði dreginn hagnaður sá, er orðið hefur á hverju skipi á þorskveiðum á þeim árum. Jöfnum höndum skal skipverjum á skipum þessum greidd uppbót þannig, að tekjur þeirra af síldveiðum nái meðaltekjum verkamanna við Síldarverksmiðjur ríkisins á því ári.“

Ef farið er að jafna milli atvinnuvega á þann hátt, sem hér er lagt til, þá virðist mér, að ríkisstj. sé að láta þetta þing samþ., að atvinnuvegur, sem hefur beðið tjón, hjálpi öðrum, sem sæmilega árar fyrir.

Þetta er svo mikið mál, að það er ákaflega mikil nauðsyn, að það gangi fram, áður en þm. fara í jólafríið og fyrir áramót. Þm. mega ekki skilja svo nú, að þeir hafi ekki gengið frá ráðstöfunum til að koma útgerðinni af stað upp úr áramótum. Það hefur dregizt óhæfilega lengi, en það getur alls ekki beðið þangað til þingið kemur saman eftir áramót. Við verðum þess vegna að vinna að málinu nótt og nýtan dag, og ef laugardagurinn dugir ekki, þá sé ég okkur ekki vandara um en sameinuðu þjóðunum að taka sunnudaginn líka, þegar svo mikið er í húfi sem raun ber vitni um.

Ég hef við 1. umr. þessa máls gert grein fyrir þessum till., og tel ég ekki ástæðu til að gera það frekar að þessu sinni. Ég hef ekki hugsað mér að tefja framgang þessa máls með óþörfum ræðuhöldum og enn síður setja fótinn fyrir þetta frv., þó að ég telji, að það sé byggt á röngum forsendum, en ég tel mikla nauðsyn, að það verði afgr. nú þegar og að það sé ekki aðeins nauðsyn útvegsmanna og sjómanna, heldur beinlínis nauðsyn allra landsmanna. Fari svo, að frv. verði afgr. í líku formi og það liggur fyrir frá hendi fjhn., þá mun nokkur tími til stefnu að flytja breyt. við það á síðari hluta þings. Það er líka svo, að þm. yfirleitt hafa ekki séð þetta frv. fyrr en í gærdag eða svo og hefur ekki unnizt neinn tími til að safna verulegum gögnum til rökstuðnings ýmissi þeirri gagnrýni, sem fram hefur komið við frv. Ég mundi t. d. á síðari hluta þessa þings geta lagt fram allýtarleg gögn, sem sýna tekjur útgerðarmanna og sjómanna síðustu tvö ár og eins, hver áhrif samþykkt þessa frv. hefur í þeirri mynd, sem það hefur nú, á þann hátt, að það færir ranglega til fé milli landshluta og fé er tekið frá þeim, sem lítið hafa haft á undanförnum árum, og fært til þeirra, sem betri möguleika hafa til að bjarga sér.

Ég vil ekki tefja frv., þó að ég fylgi brtt. mínum, heldur flýta fyrir, að það fái afgreiðslu með það fyrir augum að flytja brtt. á síðari hluta þingsins, þegar það kemur saman eftir áramót.