21.12.1946
Neðri deild: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Þó að ég reyni að fara eftir áminningu hæstv. forseta, þá liggur efni gr. nokkuð víða út í lífið. Það er sýnilegt, að æði mikið þarf til að opna augun á sumum mönnum, en nú er komið fullkomið öngþveiti, er fiskiflotinn er stöðvaður og heyrist mér, að sumir hv. þm. hafi engu gleymt og ekkert lært. Ef menn finna einhverja ímyndaða möguleika, þá rísa menn upp og ausa sér yfir till. En ekki má koma með ábendingu á nokkra stétt, því að þá segja þeir: Ekki má byrja á mér. En sannleikurinn er sá, að engin stétt hefur sýnt þegnskap í dýrtíðarmálunum aðrir en bændur árið 1944, þegar þeir féllu frá kröfum sínum til að leysa vandamálin, og ég vil undirstrika það, að ef farið hefði verið þá að því dæmi, þá værum við ekki að glíma við þetta nú, en vegna þess að það var ekki gert, er nú svo komið sem komið er, og þeir, sem stjórna, stjórna þvert ofan í stefnu bænda. Ég tel, að allir ábyrgir menn muni snúa sér að þeim vanda, sem fyrir er.

Ég vildi í sambandi við þetta mál minnast með nokkrum orðum á sósíalista. Það er gamli söngurinn hjá þeim, að ráðist sé á garðinn þar, sem hann er lægstur, og hafa tveir af þeim boðað það, að ef Alþingi samþ. nokkuð, er hrærir hár á höfði þeirra stéttar, þá verði boðað pólitískt verkfall. Hv. 8. þm. Reykv. talaði um réttleysi verkamanna, en það er bíl á milli þess að vera réttlaus stétt eða að setja sig upp fyrir þjóðfélagið og neita að vinna, ef þeim líkar ekki hvað Alþingi gerir. Mér finnst, að þetta orðalag fari illa hjá þeim, sem hafa beitt gerræði um félagsmál sín. Í till. hv. þm. Borgf. er sagt, að fyrst um sinn skuli vísitalan ekki hækka og skuli hún miðuð við árið 1946. Ríkið hefur verðlagseftirlitið og getur beitt því, ef það telur þörf til þess. Einnig er því heimilt að greiða niður dýrtíðina. En hvergi er sagt í till. hv. þm. Borgf., að það skuli gert með því að binda kaupgjald. En til þess að þessar ráðstafanir komi útveginum að liði, verður að tryggja það, að dýrtíðin hækki ekki og til að undirstrika tvö atriði, vil ég bera fram brtt. við brtt. hv. þm. Borgf. Í fyrsta lagi að verðbólgan verði stöðvuð, og hitt, að ég tel, að margar leiðir verði að fara til að ná því, ef fullt réttlæti á að ríkja. Brtt. mín er þannig, að meginmál 2. brtt. á þskj. 254 orðist svo: „Á meðan tillögur nefndarinnar koma ekki til framkvæmda eða önnur ný úrræði í dýrtíðarmálunum, skal ríkisstjórnin nota heimildir þær, sem hún hefur í lögum til að koma í veg fyrir hækkun vísitölunnar frá því sem hún er við gildistöku laga þessara.“ Þarna er slegið föstu, að stöðva skuli verðbólguna og ríkið noti heimildir sínar til þess. En ef till. hv. þm. V-Húnv. verður samþ., þá kemur þessi till. þó ekki til greinar en falli hún, þá legg ég til, að till. hv. þm. Borgf. verði samþ. með þessari brtt., sem ég nú afhendi hæstv. forseta.