21.12.1946
Neðri deild: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefur komið hér fram brtt. m. a. við 6. gr. frv. frá hv. þm. V-Ísf., og er hún á þskj. 258. Hann vill láta bæta við gr. Segir þar í brtt, hv. þm., að ef síldveiði verði með minna móti, sé ríkisstj. heimilt að greiða uppbætur úr þeim tryggingarsjóði, sem nefndur er í gr., til þeirra, sem veiða með minna móti af síld. Í öðru lagi leggur hann til, að stj. sé heimilt að stofna sjálfstæð tryggingarsvæði, að fengnum till. Landssambands íslenzkra útvegsmanna, og síðan skuli greitt í hlutfalli við afla á svæðinu og ríkisstj, skuli ákveða nánar um þessi svæði og sérsjóði með reglugerð.

Ég tel ekki fært að skipa þessum stórmálum á þann veg, sem ætlazt er til hjá hv. þm. V-Ísf. (ÁÁ). Í fyrsta lagi er till. óljóst orðuð: „Nú verður síldveiði með minna móti.“ Þetta er loðið orðalag. Og svo á að leggja það í vald stj. að úrskurða, hverjir eigi að fá uppbætur samkvæmt l. Ég held, að það sé óráðlegt að gera ráð fyrir, að þessu fé verði ráðstafað með reglugerð um sjóðina. Í þessa sjóði geta komið mjög stórar fjárhæðir, og ég held, að það sé ekki rétt að ætla stj. að ákveða, hvernig eigi að fara með þessa sjóði, þótt hún þurfi að fá till. frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna. Ég vil því leyfa mér að leggja fram brtt. um þetta atriði við brtt. hv. þm., og ætlast ég til, að þessi till. mín komi í staðinn fyrir síðari hluta 6. gr., og vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa þessa till. mína. En hún hljóðar svo :

„Skipta skal landinu í tryggingarsvæði, og skal sérstakur tryggingarsjóður vera fyrir hvert svæði. Skiptingu þessa í svæði og meðferð tryggingarsjóðanna skal ákveða með lögum frá Alþingi, að fengnum till., Fiskifélags Íslands, Landssambands íslenzkra útvegsmanna, Alþýðusambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

Það er afar skynsamlegt að mynda svona tryggingarsjóði fyrir útveginn. En það er vitanlegt, að þetta er meira mál en svo, að gengið verði frá því, eftir að það hefur fengið aðeins nokkurra klukkustunda athugun á þ., þegar þm. eru að hætta störfum nú og margt, sem kallar að. En með þessu móti verður sett löggjöf um þetta í tæka tíð. Mætti hugsa sér, að það yrði gert nú á síðari hluta þ., eða það snemma, að það gæti komið til framkvæmda fyrir næstu síldarvertíð. Það eitt tel ég viðunandi afgreiðslu á málinu.

Ég leyfi mér að afhenda hæstv. forseta þessa till. og óska, að hann leiti þeirra afbrigða, sem með þarf.