21.12.1946
Neðri deild: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég hef áður lýst afstöðu minni til þessa máls, og þarf ég ekki að endurtaka það. Ég sé, að fram er komin brtt. frá hv. þm. V-Ísf. (ÁÁ), sem fer í þá átt að lagfæra þetta frv. og gefa stj. heimild til þess að skipta landinu niður í tryggingarsvæði, þannig að ef sú till. yrði samþ., mundi þeim landshlutum, sem hafa tiltölulega meira af síld en þorski á við aðra landshluta, verða gert léttara fyrir. Ég tel þó ekki, að í þessu felist fullt réttlæti, því að ég held, að tæplega sé hægt að ætlast til þess, að síldarútvegurinn leggi til stórfé til þess að borga niður þorskverðið. Það yrði lagt stórfé í þessa tryggingarsjóði, hvernig sem á stæði. Ég hef því gert hér brtt., sem ég hafði búizt við að fá hv. þm. Ak. til að flytja með mér, en ég sé, að hann er hér ekki mættur. Till. mín er við 6. gr. frv. sjálfs og er á þá leið, að í stað síðustu mgr. komi: „Nú verður afgangur af fé tryggingarsjóðs, og skal hann þá greiddur útgerðarmönnum og sjómönnum að tiltölu við síldarafla hvers skips.“

Í sambandi við þessa brtt., ef samþ. verður, mundi þurfa að breyta till. á þskj. 258 þannig, að fyrsta mgr., sem hljóðar svo: „Nú verður síldveiði með minna móti, og er ríkisstj. þá heimilt að greiða uppbætur úr tryggingarsjóði á afla ársins 1947.“ mundi þá falla niður, ef brtt. mín yrði samþ.

Eins og ég tók fram í gær, mun ég að sjálfsögðu fylgja aðaltill. minni um brottfall 6. gr., en þar á eftir þeim till., sem koma til nokkurrar lagfæringar, svo sem þessari till. frá hv. þm. V-Ísf. (ÁÁ).

Ég lýsti yfir því í gær, að ég mundi ekki tefja þetta mál með óþörfum umr., en afstaða mín er sú að fá þetta frv. lagfært svo mikið sem unnt er, því að við megum ekki skilja, fyrr en það hefur fengið afgreiðslu frá þinginu.