22.12.1946
Efri deild: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Hermann Jónasson:

Ég tel, að ekki skipti miklu máli, hvort þessi brtt. er samþ. eða ekki, því það eru, því miður, ekki svo miklar líkur til, að hún hafi nokkra þýðingu í framkvæmdinni, þar sem ósennilegt er, að fiskverðið fari fram úr því verði, sem ábyrgzt er.

Það, sem ég ætla að ræða um, er brtt., sem meiri hl. n. ekki vildi fallast á og við flytjum þess vegna, ég og hv. 8. landsk. Þessi brtt. er ákaflega óbrotin og þarf ég ekki að eyða um hana mörgum orðum, en hún er þannig :

„Við 6. gr. 1. mgr. Í stað orðanna „hækkun, er svarar til fiskverðshækkunar samkvæmt 1. gr. og vinnslukostnaði“ komi : 66% hækkun þess og vinnslukostnaði.“

M. ð. o. það er gert ráð fyrir því, að áður en heimilt er að taka fé í sameiginlegan tryggingarsjóð, þurfi að verða hækkun um 66% í staðinn fyrir það, sem er í frv. nú.

Rökstuðning fyrir þessu atriði þarf ég ekki að færa fram, vegna þess að þessi brtt. er í samræmi við þær röksemdir, sem ég flutti við 2. umr. málsins, og ég ætla ekki, án þess að sérstakt tilefni gefist til, að fara inn á að rökstyðja það frekar en þar er gert.

Ég skal taka það fram, að það er gert ráð fyrir því af þeim, sem eru þessum málum kunnugir, að með 40 kr. verði fyrir síldarmálið megi gera ráð fyrir, að afkoma síldarútvegsins með meðalafla sé sæmileg, en með þessu móti, að ekki verði tekinn skattur af síldarútveginum fyrr en verðið hefur hækkað um 66%, má gera ráð fyrir, að hægt sé að borga kr. 50 fyrir síldarmálið og þar með gert ráð fyrir, að þeir, sem eru vel settir, fái nokkurn gróða, ef sæmilega gengur, og geti þar með borgað skuldir, sem eftir voru frá síðustu vertíðum.

Ég skal taka það fram, að ég álít, að svo stórt mál sem þetta verði ekki afgreitt á einni kvöldstund og að þótt þessi brtt. verði samþ., sé frv. ekki nógu lagfært, er það á að verða gildandi l. í landinu.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta mál, þar sem hv. Nd. bíður eftir að afgreiða það. Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. forseta þessa. brtt.