31.10.1946
Neðri deild: 8. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

34. mál, sala verzlunarlóðarinnar á Sauðárkróki

Flm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Þetta frv. hér á þskj. 50, sem við þm. Skagf. flytjum, er um það, að Sauðárkrókshreppi verði seld verzlunarlóðin á Sauðárkróki. Það er flutt samkvæmt eindregnum tilmælum Sauðárkrókshrepps. Sauðárkrókshreppur fékk jörðina Sauðá árið 1927, en þá var verzlunarlóðin tekin undan í kaupunum, svo að ríkið á hana eftir sem áður. Þetta þykir þeim á Sauðárkróki allillt, og verður það sérstaklega óþægilegt, þegar ýmiss konar starfsemi fer fram utan verzlunarlóðarinnar. Nú hefur þeirri stefnu verið fylgt hér á Alþ., að stutt hefur verið að því, að kaupstaðir og kauptún fengju eignarhald á þeim lóðum; sem þessir staðir hafa þurft að nota, og samþykkt laganna um jarðakaup ríkisins vegna kauptúna og sjávarþorpa var einmitt gerð til þess að létta undir með þessum hreppsfélögum og bæjarfélögum að eignast nauðsynleg lönd. Það er því algerlega í samræmi við þá skoðun, sem. hér virðist ríkja, að þessi ósk kemur fram um, að hreppurinn fái verzlunarlóðina keypta.

Ég skal taka það fram, að við flm. höfum sniðið þetta frv. mjög eftir þeim l., sem sett voru um sölu Hvanneyrar í Siglufirði til handa Siglufjarðarbæ, sem er fárra ára gömul löggjöf. Þá var Siglufirði seldur meiri hluti sinnar verzlunarlóðar, sem liggur í landi Hvanneyrar.

Ég vænti þess því, að Alþ. geti fallizt á að samþykkja frv. eins og það hér liggur fyrir, og sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta að svo komnu. Við flm. erum reiðubúnir að veita þeirri n., sem með málið kann að fara, alla aðstoð, ef óskir kæmu fram um það. Ég vil svo óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr., og hygg það sé eðlilegast, að það fari til fjhn. Skal ég svo láta máli mínu lokið.