29.11.1946
Neðri deild: 29. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

34. mál, sala verzlunarlóðarinnar á Sauðárkróki

Frsm. (Jóhann Hafstein) :

Þetta frv. hefur legið fyrir fjhn., og leggur hún til, að það verði samþ. óbreytt. Voru allir nm. sammála um þá nauðsyn fyrir kauptún og kaupstaði að eiga þær lóðir, sem þau eru byggð á. Árið 1927 keypti Sauðárkrókur land Sauðár að verzlunarlóðinni undanskilinni, en það væri að dómi nm. rétt, að kauptúnið eignaðist einnig þessa landspildu.

Mér þykir rétt að láta það koma fram, að undanfarið hafa orðið nokkrar umr. um, hvort ekki bæri að setja frekari takmarkanir um leigu landssvæða, þar sem það kemur ósjaldan fyrir, að hið leigða hækkar í verði vegna aðgerða samfélagsins. Hefur verið rætt um að setja nánari skilyrði, t. d. ákvæði um mat á vissu árabili, til þess að gefa mönnum ekki kost á að hækka kröfuna í hið leigða vegna opinberra framkvæmda. N. telur þó, að þetta eigi að haldast aðgreint frá þessu frv., er hér um ræðir, og leggur að öðru leyti til, að frv. verði samþ. óbreytt.