09.12.1946
Neðri deild: 34. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

55. mál, aðflutningsgjöld o. fl.

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta frv. er afleiðing af samningnum, sem gerður var við Bandaríki Norður-Ameríku á s.l. hausti. Nokkur atriði í samningi þessum eru þannig, að þau tilskilja útlendingum nokkur sérréttindi, og þarf því að löggilda þau samningsatriði. Skoðanamunur hefur komið fram um þetta mál hér á Alþ., og skilar fjhn. áliti í tvennu lagi, og vil ég fara nokkrum orðum um sjónarmið meiri hlutans.

Það hafa áður verið gerðir samningar, þar sem sumum atriðum hefur þurft að veita lagagildi, og hafa þá sýnzt þrjár leiðir fyrir hendi. Venjulegasta leiðin er sú að heimila ríkisstj. að láta samningana öðlast lagagildi. Nú er hins vegar farin sú leið, að aðeins sé veitt lagagildi þeim ákvæðum, sem snerta ísl. löggjöf, og styður meiri hl. fjhn. þetta. Þriðja leiðin hefur svo komið fram í áliti minni hl. fjhn., sem vildi láta gera sérstaka grein fyrir því, hvaða íslenzk lög þessi atriði snertu. Meiri hl. fjhn. lítur hins vegar svo á, að hin leiðin sé öruggari, þar sem hún nær yfir allt, sem fram kann að koma, sbr. 1. gr., þar sem ýmisleg atriði eru upptalin, en síðast er svo „og önnur atriði“. Ef upptalning er ekki tæmandi, þá kemur það, sem á skortir, undir „önnur atriði“, og er þar með tryggt, að l. nái til allra atriða, sem fram kunna að koma, þau er snerta íslenzka löggjöf. Þótt það sé ekki alveg ljóst, hvaða l. koma undir þessi önnur atriði, má þegar sjá sum þeirra. Nefni ég sem dæmi l. um flugför frá 1929, þar sem sett eru þau ákvæði, er ekki samrýmast sumum atriðum í samningnum við Bandaríkin. Þá koma einnig þar undir l. um útlendingaeftirlit, því að það væri brot á samningnum, ef neita ætti öllum Bandaríkjamönnum um landvistarleyfi. En frv. getur ekki takmarkað samninginn neitt, án þess að um brot á samningnum væri að ræða. Aðalatriði frv. eru skýr og ljós. Meginákvæðin eru um tolla- og skattamál, og verða þar gildandi l. að víkja, og í 2. gr. eru sett ströng ákvæði um ólöglega varningsmeðferð, sem um gæti verið að ræða.

Læt ég svo útrætt um þetta, en lýsi yfir, að meiri hl. fjhn. er frv. samþykkur.