10.01.1947
Efri deild: 48. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

34. mál, sala verzlunarlóðarinnar á Sauðárkróki

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Þetta frv. hefur fengið samþykki í Nd. og er búið að fara gegnum eina umr. hér og til fjhn. Fjhn. hefur athugað það og mælir einróma með því, að það verði samþ. Að vísu er rétt að taka fram, að einn nm. var ekki viðstaddur, þegar n., afgreiddi málið, heldur var hann farinn norður rétt fyrir jólin. N. var kunnugt um ýmis önnur sambærileg mál, þar sem kauptún og hreppar hafa fengið keyptar spildur úr jörðum, sem ríkið á. T. d. fékk Siglufjörður keypta Hvanneyri, og sömuleiðis kom fyrir hliðstætt atriði í fyrra, þar sem Búðahreppur við Fáskrúðsfjörð fékk keypta spildu, sem var ríkiseign. Eftir upplýsingum, sem ég hef fengið um það mál, sem hér liggur fyrir, er þannig háttað, að jörðin Sauðá, sem kaupstaðurinn stendur á, var seld hreppnum fyrir nokkrum árum, en verzlunarlóðirnar undanskildar. Hins vegar hefur það komið í ljós, að það er mjög óþægilegt vegna skipulagningar, að sami aðili skuli ekki vera eigandi verzlunarlóða og annarra lóða. Einnig liggja fyrir upplýsingar frá viðkomandi ráðuneyti, að það vilji mæla með sölunni og telur ekki nema eðlilegt, að þetta verði samþ.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um málið, en óska eftir, að frv. nái að ganga fram.