14.01.1947
Efri deild: 50. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

34. mál, sala verzlunarlóðarinnar á Sauðárkróki

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað vekja athygli á tveim atriðum þessa frv. Ég verð að viðurkenna, að þessar aths. mínar eru nokkuð seint fram komnar. Sagt er í 2. málsgr. 1. gr. frv., að land það eða lóðir, sem hreppurinn eignist í þessum kaupum, sé honum óheimilt að selja, en heimilt að leigja þær, og fer um leiguna samkv. reglugerð, er ríkisstj. staðfestir.

Ég er ekkert á móti því og tel það rétta stefnu, að kauptún og þorp eigi land það, sem þau eru byggð á. En það er aðeins tvennt, sem mér finnst athugandi í þessu frv. Komið hefur fyrir, að ríkið hefur selt lóðir kauptúnum og bæjarfélögum, en síðar orðið að kaupa þær aftur við okurverði, þegar það hefur þurft á þeim að halda undir opinberar byggingar. Þetta átti sér stað á Siglufirði, þegar ríkið þurfti að láta stækka síldarverksmiðjurnar þar. Víðar hefur þetta og sýnt sig, t. d. á Skagaströnd. Þar varð ríkið, eftir að l. um Höfðakaupstað voru sett, að kaupa með margföldu verði lóðir þær, sem það hafði selt fyrir tveim árum. Ég gæti búizt við, að slíkt gæti átt sér stað á Sauðárkróki, en þar hefur iðulega komið til mála að reisa síldarverksmiðju. Væri nú ekki athugandi að setja inn í frv. ákvæði um það, að ríkið fái lóðir þær, sem það selur, með sama verði og það seldi þær fyrir, ef það þarf á þeim að halda.

Þetta var nú önnur aths. Hin er um það, að ég tel það í mesta máta óheppilegt, að þegar ríkissjóður hefur selt bæjarfélagi eða þorpi land eða lóðir, þá verði viðkomandi bæjarfélag að hlíta föstum reglum, sem ríkisstj. setur, um sölu og leigu þessara lóða eða landsvæða. Ég vil ekki setja nein ákvæði varðandi þetta. Nú er það vitað mál, að lóðirnar eru mjög svo mismunandi settar. Gegnum sumar eiga að liggja götur, aðrar eru ætlaðar fyrir hafnarmannvirki o. s. frv. Það er því óhugsandi að ætla að leigja þær eftir einhverjum föstum reglum. Ég tel því, að síðari hluti 2. máls gr. 1. gr. frv. þyrfti alveg að falla burtu.

Ég hefði gjarnan kosið, að hv. forseti frestaði umr. nú, ef nm. fyndist ástæða til að taka þetta til athugunar, annarsvegar, að ríkið verði ekki látið hafa neitt eftirlit með því, hvernig þessi lönd eru leigð út, heldur láti það viðkomandi bæjarfélag ráða því, og hins vegar, að sett verði inn í frv. þetta ákvæði um forkaupsrétt ríkissjóðs á þessum lóðum, eftir því sem með þarf vegna opinberra framkvæmda, sem ríkið stendur fyrir, og sömuleiðis, að ákvæði þetta verði ekki aðeins sett inn í þetta frv., heldur og önnur frv., sem fjalla um svipuð tilfelli og þetta.

Mig langar til þess að heyra um álit nm. á þessu og möguleikana á að fresta umr. Ég tel, að málið líði enga nauð við það, þótt því yrði frestað um 1–2 daga.