09.12.1946
Neðri deild: 34. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

55. mál, aðflutningsgjöld o. fl.

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Það er aðeins eitt atriði í ræðu hv. 2. þm. Reykv., sem ég vildi fara um nokkrum orðum. Hann talaði um þessi „önnur atriði“ og vék að því, hvort l. um eftirlit með útlendingum gætu fallið undir „önnur atriði“ í upptalningu 1. gr. frv., og hér væri því um undanþágu frá ákvæðum þeirra l. að ræða. Til þess að svo væri, þyrftu ákvæði samningsins við Bandaríkin að varða efni þessara l., sbr. 1. gr. frv. Ég fæ ekki séð, að svo sé, og hv. frsm. minni hl. lagði áherzlu á, að utanrrh. hefði sérstaklega tekið fram við umr. um samningsuppkastið, að svo væri ekki. Ég vék aðeins að því í fyrri ræðu minni, að það mundi geta leitt til samningsrofa, ef ráðh., sem með þau mál fer, neitaði öllum þegnum Bandaríkjanna um dvalar- og atvinnuleyfi til þeirra starfa, sem samningurinn tekur til. Hitt er ótvírætt, að hér er ekki um að ræða samkv. þessu frv. neinar undanþágur frá efni l. um útlendingaeftirlitið.