11.11.1946
Neðri deild: 14. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

60. mál, aldurshámark opinberra starfsmanna

Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Frv. þetta, sem prentað er á þskj. 86, höfum við hv. þm. Mýr. flutt um breyt. á l. frá 1935, um aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna. Þessi l. voru upphaflega sett í þeim tilgangi að koma í veg fyrir það, að menn sætu í opinberum stöðum, eftir að starfsþrek þeirra og heilsa væri hrörnuð. Nú hefur mannsævin á Íslandi lengst mikið síðustu árin, og stafar sú breyting af betri lífskjörum þjóðarinnar. Gegnir því hér nú allt öðru máli. Reynslutími laganna hefur verið 10 ár, og hafa fá dæmi sýnt það, að menn innan sjötugsaldurs væru ekki færir til þess að gegna embættum sínum. Margir ráðh. hafa líka látið þetta afskiptalaust. Hins vegar er oft skipt um menn í ráðherrastólum, og sumir ráðh. hafa skorið yfir um 65 ára aldurinn til þess að forðast það að sýna hlutdrægni. Aðrir hafa svo látið þetta ráðast eftir hæfni manna. Aðalatriði okkar flm. þessa frv. er, að yfirleitt eru menn fullkomlega færir til þess að gegna opinberum störfum til sjötugsaldurs og að það sé óhagstætt fyrir ríkið að kasta æfðum mönnum og setja þá á eftirlaun, og eru þau frekar há á íslenzkan mælikvarða. Stundum eru þessum mönnum líka greidd full laun. Ég hef ekki aflað upplýsinga um, hversu miklu þessi útgjöld varða ríkissjóð né hve há sú upphæð yrði, sem sparaðist á greiðslu eftirlauna, miðað við 65–70 ára starfstímabil. Starf í þágu ríkisins hefur aukizt mjög hin síðari ár og tala þeirra manna, sem bera rétt til eftirlauna. Nú sitja t. d. tveir hæstaréttardómarar á eftirlaunum, og laun þeirra nema upp undir 100 þús. kr. á ári og er því ekki einskis virði að nota slíka starfskrafta sem lengst.

Ég orðlengi ekki frekar um þetta. Megintilgangur þessa frv. um breyt. á l. er þessi. Í fyrsta lagi að samræma starfslengd opinberra starfsmanna. Í öðru lagi, að ríkið missi ekki valda starfskrafta. Og í þriðja lagi, að firra ríkissjóð að hafa góða menn á eftirlaunum. Ég vænti svo þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.