17.12.1946
Neðri deild: 39. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

60. mál, aldurshámark opinberra starfsmanna

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það er í forföllum hv. 2. þm. Eyf., sem er frsm. minni hl., sem ég tek hér til máls. Við vorum sammála um að fallast á þetta frv. og töldum það eiga rétt á sér. Eftir þeirri reynslu, sem fengin er af þessu, ætla ég, að nær undantekningarlaust mæli sú reynsla með því, að fallizt væri á þetta frv. Það er engum efa undirorpið, svo framarlega sem menn eru heilsugóðir, að þá hafa þeir starfskrafta til flestra þeirra starfa, sem heyra undir embættismenn, til þess að gegna þessum störfum lengur en til 65 ára aldurs. En náttúrlega er það alveg rétt, að verði menn fyrir heilsubresti, þá standa þeir verr að vígi, þegar þeim aldri er náð. En menn þurfa ekki að vera 65 ára til þess að vera miður sín til þess að gegna störfum, ef heilsan er þrotin á annað borð. Það getur því miður komið fyrir margan manninn löngu fyrr, og þessi lagaákvæði eiga sannarlega ekki að vera neinn mælikvarði á það, hvorki að það eigi að vera né geti orðið. Þessi lagaákvæði eiga við það almenna, þá almennu reglu, þegar menn halda heilsu og gera má ráð fyrir, að menn haldi nokkurn veginn óskertum starfskröftum, og í langsamlega flestum tilfellum, ef heilsan er í lagi, þá halda menn fullum starfskröftum til 70 ára aldurs.

Minni hl. n. gæti því fullkomlega fallizt á, að þetta frv. næði fram að ganga, og fellst á þá grg., sem fyrir frv. er, enda skilst mér nú á meiri hl., sem hann sé nokkuð reikull í ráði, því að nú við framsögu hv. frsm., þótt hann leggi á móti frv. og vilji fella það, þá taldi hann, að rétt kynni að vera að gera breyt. á þessu, eins og það er. En ég ætla nú, að það væri þá bezt að leyfa frv. að ganga áfram, því þó að það síðar meir kynni að geta risið upp frá dauðum, þá verður það ekki á þessu þingi. Það vildi ég vona vegna þess, hvernig þessi meiri hl. er skipaður, að hann hefði það í huga, úr því að þeir þó eru það nærri okkur minni hl. að telja, að rétt væri að gera breyt. frá því, sem er í l. Nú er ég þeim þakklátur fyrir það, að þeir hafa komið auga á þessa nauðsyn, en þá vil ég, að þeir breyti eftir því, finnst það viðkunnanlegra fyrir þá sjálfa. Hv. frsm. meiri hl. gat þess, að hann hefði átt tal við nm. um, að rétt kynni að vera að gera breyt. á þeirri reglu, sem nú er í gildi í lögum.

Það er sem sé þannig nú eftir gildandi l., að embættismaður á engan rétt á að gegna áfram starfi, sé hann ekki kosinn, ef hann er 65 ára. Hlutaðeigandi ráðh. getur látið hann hætta, þegar hann er 65 ára, hvað sem öllum aðstæðum líður, það er undir geðþótta ráðh. komið.

Nú hafði ég það á orði innan n., og ég skýt því að sem ekki mikilvægu atriði, að rétt væri, svo framarlega sem ekki yrði fallizt á frv., eins og það er, að gera breyt. á þessari reglu og snúa henni alveg við, þannig að embættismaður ætti rétt á, ef hann kysi, að hætta, þegar hann er 65 ára í stað þess, að nú getur sá ráðh., sem hann heyrir undir, látið hann hætta, þegar hann er 65 ára. Ég gæti vel fellt mig við það, að þessi breyt. væri á gerð, þannig að embættismaður ætti rétt á því að hætta með óskoruðum réttindum, þegar hann er orðinn 65 ára, ef hann óskaði eftir, en ráðh. gæti ekki skipað honum að hætta, hvað sem starfskröftum hans liði. Hv. frsm. hefur ekki minnzt á þetta við mig, eftir að meiri hl. tók sínar ákvarðanir innan n., en fyrst hann þó hafði það á orði, að hann léti sér detta í hug, að rétt væri að frv. gengi fram í breyttri mynd, þá hefði ég kunnað vel við, að hann hefði talað um það við mig, því þar sem ég hreyfði þessu fyrst í n., hefði hann getað farið nærri um það, að ég vildi tala við meiri hl. Þetta fyndist mér nú viðunanlegasta og viðfelldnasta afgreiðslan á þessu máli, að embættismaður ætti rétt á að vera til 70 ára, en ef hann óskaði, mætti hann hætta þegar hann er 65 ára.

Nú berum við minni hl. ekki fram brtt. um þetta atriði í frv., og það var sakir þess, að n. klofnaði. Við vildum ekki eiga á hættu að fara að bera fram brtt. við þessa umr., heldur sjá, hvað gerast kynni um málið við umr. En fyrst meiri hl. stendur þetta nærri okkur, skilst mér, að ekkert þurfi að bera á milli, og vona ég, að hann haldi ekki fast við þá ákvörðun að fella frv., því að þá kemur hann engum leiðréttingum að. Vil ég því beina því til hv. meiri hl., hvort hann vill ekki af sinni hálfu greiða fyrir því, að frv. gangi til 3. umr. og að þá yrði tekið til meðferðar milli umr., hvort ekki næðist samkomulag um breyt., og frv. gengi þá fram í þeirri mynd, sem talizt gæti viðhlítandi og hv. flm. gætu einnig fallizt á. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. Ég sé, að flm. frv. eru ekki hér við, og má vel vera, a ð það skorti eitthvað á hjá mér af því, sem fram mætti taka frekar til stuðnings þessu máli, því að ég var ekki við því búinn að hafa orð fyrir minni hl., fyrr en nú á þessu augnabliki, þegar málið kom til meðferðar, svo að það getur komið fleira til greina, sem mælir með því, að frv. gangi fram. Og ég vil vona, að menn taki upp þann hátt, þegar ekki ber neitt verulega á milli um málið, að reyna að sameinast um það, svo að það gangi fram í þeirri mynd, sem viðunandi er fyrir alla aðila.