17.12.1946
Neðri deild: 39. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

60. mál, aldurshámark opinberra starfsmanna

Sigurður Kristjánsson:

Fyrir hönd okkar flm. þakka ég hv. allshn. fyrir afgreiðslu þessa máls, þótt hún hafi tekið langan tíma og n. klofnað um málið. Það stendur þó sennilega allt til bóta, og ég hygg, að nægur tími verði til að koma þessu frv. gegnum þingið, þótt 7 vikur séu síðan það kom fram. En um till. allshn. vildi ég segja þetta:

Hv. meiri hl. hefur að sönnu lagt gegn framgangi málsins, en þó ekki sagt því neitt til miska í áliti sínu né véfengt réttmæti þess, sem tekið er fram í hinni stuttu grg., eða þess, sem ég sagði í framsöguræðu minni. En ef til vill er sú staðhæfing mín mergurinn málsins, að síðan 1. um aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna vora sett, hafi breytzt mikið til batnaðar um starfsorku manna, þar sem mannsævin á Íslandi, hefur lengst sökum bættrar aðbúðar þjóðarinnar. Ég verð að líta svo á, þar sem hv. meiri hl. allshn. hefur ekki andæft þessu, ekki fært fram rök gegn því, og frsm. meiri hl. meira að segja látið ótvírætt í ljós, að þetta væri álitamál, ég verð að líta svo á af öllu þessu, að afstaða meiri hl. sé okkur flm. jafnvel í vil. Ég tek undir það, sem hv. frsm. minni hl. tók fram, að ég álít, þar sem hv. frsm. meiri hl. taldi breyt. geta komið til greina á síðara stigi málsins, að þetta megi skoða þannig, að hann sé því ekki mótfallinn, að málið gangi áfram til 3. umr., og þá væri sérstaklega hægt að athuga, hvort unnt væri að koma að breyt., sem væru viðunandi fyrir meiri hl.

Hv. minni hl. n. þakka ég sérstaklega afgreiðslu málsins, og ekki sízt það, að hann hefur gert rök. frv. að sínum rökum. Að öðru leyti vil ég svo ekki tefja umr. Ég vil þó aðeins minnast á þá breyt., er hér var tekið fram, að til mála gæti komið, þ. e. að snúa l. við, svo að það verði á valdi opinberra starfsmanna sjálfra, hvort þeir láta af störfum eða ekki 65 ára, en veitingavaldið hafi ekki rétt til að láta þá fara frá störfum fyrr en 70 ára, eða öfugt við það sem nú er. Samkv. núgildandi l. er veitingavaldinu heimilt að láta opinbera starfsmenn gegna störfum til sjötugsaldurs, en starfsmennirnir hafa ekki rétt til að krefjast þess. Fyrr greind breyt. hafði komið til greina, áður en þetta frv. kom fram, og ég taldi þetta álitamál. En síðan frv. kom fram hafa mjög margir bent mér á, að fullyrða mætti, að mjög margir opinberir starfsmenn væru færir um að gegna störfum sínum og embættum lengur en til sjötugs. T. d. væru margir prestar mjög vel til þess fallnir að gegna embættum til 75 ára aldurs og jafnvel lengur, og enn fremur hefur verið bent á, að lenging mannsævinnar og mjög bættur lífsþróttur þjóðarinnar hefði vaxið meira en svarar 5 árum, síðan lög um aldurshámark embættismanna voru sett, og gæti því í rauninni verið hagkvæmt að setja heimild í ný l., er veitti mönnum leyfi til að starfa allt til 75 ára aldurs. Það er nægur tími til að athuga þetta milli 2. og 3. umr., en mér finnst það geta komið til mála. Ég vil leggja áherzlu á, að það er í alla staði óhagkvæmt fyrir ríkið að láta menn fara frá störfum, fyrr en elli krefur. Í fyrsta lagi sökum þess, að reyndir menn eru færari um að rækja störfin en nýir menn og óreyndir, og í öðru lagi sökum þess, að opinber störf eru orðin geysifjölþætt hér og fjölmargir vinna að þeim, og það er því mikið fjárhagsspursmál fyrir ríkið og aðra, er greiða opinberum starfsmönnum laun, að þeir láti ekki af störfum áður en hrörnun þeirra krefst, því að flestir taka þá ellilaun og ekki svo fáir óskert laun, og það fer vaxandi.

Ég vænti þess, að hv. meiri hl. allshn. sé því ekki mótfallinn, að málið gangi til 3. umr., og efast raunar ekki um vilja hv. d. í því efni. Og ég get sagt það fyrir mína hönd og meðflm. míns, að við leggjum ekki svo mikið kapp á að flýta málinu, að við viljum ekki komast að samkomulagi um breyt. milli umr., ef það næðist.