20.12.1946
Neðri deild: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

60. mál, aldurshámark opinberra starfsmanna

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein) :

Ég vildi í sambandi við þetta mál leyfa mér að mæla nokkur orð með till. á þskj. 244, en efni hennar er í samræmi við þær hugmyndir, sem ég lét falla um þetta mál við 2. umr., en ég talaði þá fyrir hönd meir í hl. allshn., sem var sammála um að vilja ekki fallast á þá stefnu, sem mörkuð er í frv. á þskj. 86, að færa aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna skilyrðislaust upp í 70 ár, en gerði þá grein fyrir því, að það hefði skotið upp hugmynd um breyt. frá því, sem nú er í þessum efnum, þó að ekki hafi verið flutt brtt. Kom það fram hjá hv. 1. þm. Árn., að hann hafði haft svipaða hugsun í þessum efnum. Síðan hefur skipazt þannig, að við höfum orðið sammála um að flytja þessa brtt., sem er í samræmi við vilja form. n., sem við höfum kynnt okkur, áður en hann fór af landi burt, hv. 2, þm. Eyf. Mér er ekki fullkunnugt um afstöðu hinna nm., og stafar það af því, að ekki hefur tekizt að eiga nægilegt tal um það, einkum við hv. 11. landsk., en hann gerir þá sennilega grein fyrir afstöðu sinni, hvort sem hann hallast að þessu máli eða heldur við sína fyrri afstöðu.

En það, sem lagt er til í þessari brtt., er, að meginreglan verði sú, að aldurshámark opinberra embættismanna og starfsmanna verði 70 ár, en hins vegar sé þeim heimilt, þegar þeir eru orðnir 65 ára, að láta af störfum með fullum eftirlaunarétti. Það snýst þannig við sú regla, sem áður gilti, að hámarkið var 65 ár, en menn gátu fengið með samningi að sitja lengur. Nú er hámarkið 70 ár, en jafnan á embættismaður að hafa sjálfur heimild til að ákveða, hvort hann vill fara frá á tímabilinu frá 65–70 ára aldurs. Við lítum svo á, að það sé eðlilegt að áskilja embættismönnum þennan rétt. Margir hafa gegnt það lengi starfi, þegar þeir eru orðnir 65 ára, að full ástæða getur verið að viðurkenna ákvörðunarrétt þeirra, hvort þeir vilja hverfa frá starfi, og ég hygg, að ekki þurfi að setja fleiri takmarkanir um það en felast í því, að þeir fari frá með fullum rétti, því að ef þeir starfa skamman tíma, er sá réttur að sama skapi minni. Þetta er aðalefni brtt. á þskj. 244, og ætla ég, að ekki þurfi að hafa um hana fleiri orð að sinni.