20.12.1946
Neðri deild: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

60. mál, aldurshámark opinberra starfsmanna

Hermann Guðmundsson:

Herra, forseti. Það voru meginrökin, þegar l. um aldurstakmark opinberra embættis- og starfsmanna voru sett árið 1935, að reynslan hefði sýnt, að þegar menn væru komnir yfir þann aldur, sem þar er tekið fram, þá væru þeir ekki jafnhæfir til að gegna störfum sínum sem áður. Það kom þá fram í umr., að allir voru sammála um nauðsyn þess, að takmörkum um hámarksaldur væri slegið föstum. Menn greindi að vísu á um, hvar takmarkið ætti að vera, en niðurstaðan varð sú, að það yrði miðað við 65 ára aldur. Hér ræða menn um þetta nú og deila um, hvort aldurshámarkið skuli vera 65, 67 eða 70 ár, og mun það ekki hafa áhrif á þá afstöðu mína, að það skuli bundið við 65 ára aldur. Ég mun þess vegna halda fast við, að frv. verði fellt, og mun því halda fast við hina upprunalegu afstöðu mína, til þessa máls.