21.01.1947
Efri deild: 54. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

60. mál, aldurshámark opinberra starfsmanna

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson) :

Herra forseti. Þegar l. um aldurshámark opinberra starfsmanna voru sett árið 1935, var um það nokkur ágreiningur, við hvaða aldur skyldi miða sem hámarksaldur opinberra starfsmanna. Þarf engum að koma á óvart, þótt slíkur ágreiningur verði, þegar þess er gætt, hve mikið matsatriði þetta er. Það er alkunnugt, að menn eldast mjög misjafnlega fljótt og opinberir starfsmenn ekki síður en aðrir. Sumir hafa fulla starfskrafta fram um sjötugsaldur og kannske lengur, en aðrir eru útslitnir 60 ára. Þetta er algert matsatriði hverju sinni og ekki hægt að setja algilda reglu um það, hvenær menn skuli láta af störfum, þannig að hún geti gilt fyrir alla, og hætta á því, að þegar slík regla er, muni sumir þurfa að vera við störf lengur en þeir eiga hægt með heilsunnar vegna, en aðrir láta af störfum fyrr en þeir þyrftu heilsunnar vegna.

Þegar þessi l. voru sett, var aldurinn 65 ár, en nú held ég, að flestir séu þeirrar skoðunar, að markið eigi að vera hærra — og er þetta frv. þar á milli. Það hefur ekki þótt rétt að færa þetta upp í 70 ár og setja það þannig, að reglan sé fortakslaus, þannig að þeir mættu ekki láta af störfum fyrr, ef heilsa þeirra er með þeim hætti.

Það er til sú leið að láta framkvæmdavaldið ákveða það hverju sinni, hvort maður eigi að láta af störfum. En hætt er við, að misbeiting yrði á framkvæmd slíkra reglna og hætt við, að þeir, sem með valdið færu, hefðu ekki aðstöðu til þess að dæma um það, hvort maðurinn ætti að láta af störfum 65 ára eða eldri. Það hefur því verið horfið að því ráði að láta það hverjum einum í sjálfsvald sett, hvort hann hætti, þegar hann er 65 ára, eða ekki fyrr en hann er 70 ára, og er þá látið ráðast, hvort þeir sjálfir telja starfskraftana svo, að þeir geti haldið áfram, eftir að þeir eru 65 ára. Það skal játað, að menn kynnu að nota, sér það að hætta, þegar þeir eru 65 ára, en það er til öryggis gegn því, að þeir mundu við það missa verulega í launum, þannig að þeir hefðu ekki nema eftirlaun sín, og þess vegna er von um, að þeir létu ekki af störfum, fyrr en þeir eru orðnir 70 ára, ef þeir hafa vinnuþrek. Þetta er hugsunin, sem frv. byggist á.

Allshn. hefur fengið frv. til athugunar, og getur hún fallizt á þetta sjónarmið og leggur til, að frv. verði samþ. óáreytt.

Ég skal taka það fram, að það kom fram og var tilhneiging til að fara milliveginn, að aldurinn væri 67 ár og hafa hann fortakslausan, en það varð ekki samkomulag um það, og var þeirri till. ekki fylgt eftir.

Með þessum aths. leggur n. til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.