30.10.1946
Neðri deild: 7. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

32. mál, héraðsskjalasöfn

Flm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Þetta mál er, sem hið fyrra á dagskrá þessarar d., heimildarlög. Meginatriði þessa máls eru í fyrsta lagi, að enn fleiri skjölum verði komið til geymslu utan kaupstaðanna og einkum Reykjavíkur en nú er gert, og í öðru lagi að tryggja öruggari geymslu bóka, handrita og skjala. Rök þau er lúta til þessarar breyt. eru:

1. Þjóðskjalasafninu berst nú orðið svo mikið frá embættis- og starfsmönnum ríkisins og nefndum, sem skipaðar eru af ríkisstj., að vandkvæði eru nú á að varðveita það allt saman þannig, að það verði aðgengilegt fyrir þá, sem óska að nota þessi skjöl. Það virðist því ekki ástæða til að draga að þjóðskjalasafninu enn þá fleiri flokka skjala og bóka, ef kostur er á góðri geymslu annars staðar.

2. Á nokkrum stöðum utan Reykjavíkur eru nú þegar bókhlöður, sem hæfar eru til skjalageymslu. Loks er óvarlegt af öryggisástæðum að safna öllum skjölum og heimildum á einn stað, ef eldsvoða eða önnur stór óhöpp ber að höndum, enda mun það ekki gert í nágrannalöndum okkar. Hugsum okkur, ef það kæmi fyrir, að ein hinna stóru, útlendu flugvéla, sem sveima daglega yfir Reykjavík, hrapaði á Safnahúsið. Margt mundi þá farast og landið rúið að gömlum menningarverðmætum. Í stríðinu þótti ekki tryggt að geyma slík skjöl hér í Reykjavík. Það er hvergi tíðkað að flytja öll skjöl og bækur á einn stað. Erlendis eru sérstök borgarskjalasöfn og héraðsskjalasöfn. Þetta, að flytja öll skjöl á einn stað, var eðlileg ráðstöfun á sínum tíma. Ég tel, að nú eigi bæði kaupstaðir og héruð að hafa fullan rétt til að fá skjöl og bækur nefnda, sem skilað hefur verið, ef þeir geta sjálfir geymt þau örugglega. Forstöðumenn héraðsstjórnanna hafa líka betri kunnugleika á málum héraða sinna en mennirnir á þjóðskjalasafninu. Miklar líkur væru þá til þess, að miklu væri þá bjargað, sem annars færi forgörðum.

Í frv. er lagt til, að skipting bóka og skjala milli þjóðskjalasafnsins og héraðsskjalasafna verði á þá leið, að þjóðskjalasafnið taki til vörzlu skjöl og embættisbækur allra starfsmanna ríkisins annarra en hreppstjóra, en afrit af flestum skýrslum þeirra eru í skjalasöfnum sýslumanna, hagstofunnar og ríkisskattanefndar, og þykir því ekki ástæða til að taka skjöl og bækur þeirra með. Enn fremur taki þjóðskjalasafnið við bókum og skjölum opinberra nefnda, ef starfssvið þeirra tekur til margra héraða eða alls landsins. Það er lögð áherzla á, að bækur héraðsnefnda verði geymdar í héruðunum sjálfum, en þó sé þjóðskjalaverði heimilt að grípa hér inn í, ef honum finnst af gildum ástæðum varðveizla skjala í héraði ónóg sökum lélegra húsakynna eða annars.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að segja þetta. Þetta mál er í mínum augum mikið metnaðarmál, að héruðin láti ekki gjörrýja sig að öllum heimildum um sögu sína. Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði vísað til hv. menntmn. og 2. umr.