27.01.1947
Efri deild: 56. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

32. mál, héraðsskjalasöfn

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá hv. Nd., eins og menn muna, og var einróma mælt með því af menntmn. þeirrar d. Einn af nm. er Barði Guðmundsson og var hann frsm. þessa máls, og eins og menn sjá af efni þess, heyrir framkvæmd þess undir þjóðskjalavörð, sem einmitt er Barði Guðmundsson. Eins og kunnugt er, þá er þetta frv. upphaflega flutt í Nd. af hv. 2. þm. Skagf. Hirði ég ekki um að rekja efni þess hér, en get látið nægja að vísa í þá grg., sem flm. lét fylgja frv. á þskj. 46.

Samkv. frv. er bæjarstjórnum og sýslunefndum heimilað að koma á fót í sýslum og kaupstöðum svonefndum héraðsskjalasöfnum, þar sem skjöl og handrit og aðrar ritaðar heimildir, er sérstaklega snerta hlutaðeigandi sýslu- eða bæjarfélag, séu tryggilega geymd.

Í 4. gr. frv. er svo ráð fyrir gert, að héraðsskjalasöfnin njóti árlegs styrks úr ríkissjóði samkv. ákvæðum fjárlaga.

Í 3. gr. er ákveðið, hvaða skjöl skuli geymd þar, og eru það:

1. Skjalasöfn hreppstjóra.

2. — sýslunefnda og bæjarstjórna.

3. — hreppsnefnda.

4. — undirskattanefnda og yfirskattanefnda.

5. — sáttanefnda.

Enn fremur er ráð fyrir gert, að söfnunum verði afhent skjöl annarra nefnda, sem ekki ná út fyrir hlutaðeigandi sýslu- eða bæjarfélög. Meginástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er fram komið, eru, eins og áður er sagt, teknar fram í grg. frv.

Mér virðist, að aðalatriðin í þessu frv. séu tvö. Í fyrsta lagi, að skriffinnska í landinu er orðin það mikil, að árlega hlaðast upp heil firn af skjölum, sem koma verður til geymslu á þjóðskjalasafninu, og er nú þegar farið að bera á húsnæðisskorti þar, svo að ekki er annað sýnna en að brátt verði að ráða bót á því. Flm. telur full vandkvæði á að flytja öll þessi skjöl á landsskjalasafnið og því ekki vanþörf á að koma þeim til geymslu einhvers staðar annars staðar.

Hin meginástæðan virðist mér vera sú, að með því að hafa héraðsskjalasöfn víða um landið er almenningi tryggður aðgangur að þessum skjölum, sem oft geta komið að hinum mestu notum. Það liggur í augum uppi, að það er erfitt að þurfa að sækja til Reykjavíkur til þess að fá aðgang að mörgum þessara skjala.

Hv. flm. benti einnig á, að það væri allt annað en hyggilegt að safna öllum merkum skjölum í landinu saman á einn stað, þ. e. a. s. Reykjavík. Einkum var þetta ótryggt á meðan á stríðinu stóð. Ekki alls fyrir löngu lét kunnur herfræðingur þau orð falla, að líkur væru fyrir því að Reykjavík væri einn þeirra staða, sem einna fyrst yrði ráðizt á í næstu styrjöld, sökum þess, hve landið hefur mikla hernaðarlega þýðingu. Nú hvílir sú skylda á ríkinu að láta byggja hús eða útvega húsnæði ýmsum skólastjórum og starfsmönnum héraðsskólanna. Sums staðar er búið að þessu, en þessi hús hafa verið reist án þess, að gert sé ráð fyrir öðrum skjölum eða bókasöfnum en þeim, sem skólana varða. Ég hygg, að hér mætti vel samrýma héraðsskjalasöfn, og ætti það að vera eilítið ódýrara með því móti að byggja það í sambandi við skólana, þar sem því verður við komið. Ég ætla þá ekki að fjölyrða þetta meira. Menntmn. þessarar d. hefur athugað málið og þær ástæður, sem fyrir því liggja, og verið sammála um, að það skyldi samþ., óbreytt.