28.01.1947
Neðri deild: 60. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

141. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Einar Olgeirsson:

Ég hafði búizt við, að framsaga yrði flutt um málið, en svo virðist ekki vera. Málið er flutt af fjhn. Ed. Það lá svipað frv. fyrir þinginu fyrir jólin frá fjhn. Nd. Það kom fram í svipuðu formi og þetta frv., þannig að lagt var til, að 2. málsgr. 9. gr. yrði felld niður. Ef ég man rétt, var þessu breytt í n. Við álitum rétt, að sett væri í það ákveðið tímatakmark, en ágreiningur var um, við hvaða tíma skyldi miða. Varð ofan á að takmarka við 1. febr. Nú sé ég, að frv. liggur fyrir í sínu upphaflega formi. Ég álít, að rétt sé, að frv. fái svipaða afgreiðslu og áður, þannig að inn í það verði sett tímatakmark. Það er ekki ástæða til þess að framlengja l. um innflutning og gjaldeyrismeðferð ótakmarkað. Það hafa allir viðurkennt, að þessi l. væru mjög gölluð, og því þyrftu þau að endurskoðast eða jafnvel afnemast. Ég held það sé engan veginn óheilbrigt, að Alþ. setji sjálft tímatakmark um þetta. Við vitum, að það rekur einmitt á eftir því, að l. verði breytt og þau löguð, ef ákveðið tímatakmark er í þeim. Þess vegna er ég á móti því, að 2. málsgr. 9. gr. sé felld niður. Áður en málið fer til n., mun ég ekki ræða meira um þetta, en mun í fjhn. leggja til, að ákveðið tímatakmark verði sett í frv.

Ég legg til, að málinu verði vísað til fjhn.