30.01.1947
Neðri deild: 62. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

141. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. V-Ísf. sagði, að það væri ekki samræmi í því að breyta þessu, eins og verkefni viðskiptaráðs væri ætlað að vera, þá virðist mér hann gleyma því, hvernig verkefni viðskiptaráðs eru á pappírnum, eftir að l. var breytt 1945. Þar er ætlazt til að samræma útflutning og innflutning og undirbúa í sameiningu áætlun um inn- og útflutning og til hvaða landa útflutningurinn færi og frá hvaða löndum innflutningurinn kæmi. Og til þess að hagnýta sem bezt markaðsmöguleikana og fullnægja sem bezt innflutningsþörf landsmanna, var gert ráð fyrir, að þetta yrði endurskoðað mánaðarlega. Það var gerð tilraun til þess að framfylgja þessum fyrirmælum l., en það tókst ekki, m. a. vegna þess, hvernig viðskiptaráð er skipað.

Það var búið að víkka starfssvið viðskiptaráðs. Það var búið að fela því innkaup til landsins í samræmi við þörf útflutningsins, og það var gengið út frá því, að hægt væri að bæta viðskiptin á ákveðnum vörutegundum við ýmis lönd. En þeir menn, sem eiga að hugsa um að tryggja markaðsmöguleikana fyrir Íslendinga, hafa ekki verið svo hyggnir sem skyldi. Það er ekki nema eðlilegt, að bæði innflutningur og útflutningur sé samræmdur. Við leggjum hér til, að það sé gert nú, og er það í fullu samræmi við þær breyt., sem hafa verið gerðar. Ég hygg, að það sé ekki rökrétt hjá hv. þm. V-Húnv. að leggja eins mikið og hann gerir upp úr því, að þarna sé samræmi á milli, nema því aðeins að nauðsynleg valdbeiting fáist til þess að framkvæma það. Ekki vildi hv. þm. V-Ísf. mótmæla því, sem ég sagði viðkomandi ábyrgri ríkisstj. í sambandi við þetta mál, og ekki býst ég við því, að hv. þm. V-Ísf. neiti því, að sú stjórn, sem nú hefur setið undanfarið, hafi verið sú stórvirkasta stjórn, sem hér á landi hefur verið, svo að þegar hún hefur ekki unnið á meira í þessu efni, sem hér er til umr., þá er ekki að vita, hverju aðrar ríkisstj. geta áorkað í þessum efnum. Ég held þess vegna, að þótt að flestu leyti eigi það við í þjóðfélaginu, að bezt sé að hafa ríkisstj., sem styðst við þingmeirihluta, þá væri ef til vill ofur lítill möguleiki nú til þess að hagnýta það millibilsástand, sem nú á sér stað viðkomandi stuðningi við ríkisstj. og stjórnarmyndun, til þess að reyna að fá þetta í gegn, sem ekki hefur fengizt, meðan fráfarandi hæstv. ríkisstj. hefur verið við völd. Og ef það svo sýnir sig síðar, að þingmeirihluti verður fyrir hendi til þess að breyta eitthvað til frá því, sem hér yrði samþ. í þessu efni samkv. því, sem ég held fram, að eigi að gera, þá getur hver sterk ríkisstj. gert breyt. á því skipulagi, sem hún álítur vera til bóta, ef þingvilji er þá fyrir hendi til þess, þannig að ef næsta ábyrg ríkisstj. getur fundið betri aðferð í þessum efnum, þá getur hún breytt löggjöfinni aftur. — Ég sé því ekki, að það sé neitt óréttlátt að nota nú tækifærið til þess að knýja fram þessa breyt.