12.02.1947
Efri deild: 70. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

166. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1947

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég sakna þess, að hæstv. forsrh. skuli ekki vera til staðar hér og ekki skuli hafa heyrzt neitt frá hæstv. ríkisstj., enda þótt það sé vitað, að okkur þm. er málið kunnugt og við viljum gjarnan greiða fyrir því.

Nú er svo háttað, að komið er fram í febr. og ný ríkisstj. hefur verið mynduð, en enn þá hefur ekkert heyrzt um afgreiðslu fjárlaga. Ég sé ekki ástæðu til þess að breyta þessu frv. neitt, en vil nota tækifærið til að lýsa því yfir, að ég álít það hinn mesta ósið, sem um nokkur ár hefur tíðkazt, að láta þing fyrra árs dragast fram á það næsta. Um leið og ég greiði þessu frv. atkv., þá vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún sæi sér ekki fært að gera tilraunir til þess, að þingið 1947 yrði búið á því ári, hvort hún gæti ekki kallað þingið saman fyrir 1. okt., en til þess hefur hún fullt leyfi. Þetta er mjög slæmt ástand og næsta óþægilegt. Ef til vill finna þm. þeir, sem búsettir eru hér, ekki eins mikið fyrir óþægindum, sem af þessu leiða, en fyrir þm. búsetta úti á landi er þetta mjög óþægilegt og slæmt að standa í vafasömum ferðalögum að vetri til, auk þess sem hið svokallaða jólaleyfi er stuttur tími til þess að vinna ýmis störf, sem aðkallandi eru um áramótin, svo sem reikningsuppgjör og annað slíkt.