29.01.1947
Neðri deild: 61. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

146. mál, beitumál

Frsm. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Sjútvn. flytur þetta frv. að beiðni atvmrh. N. hefur leitað umsagnar L. Í. Ú., og hefur það lýst yfir fylgi sínu við breyt. er frv. gerir ráð fyrir. Beitunefnd telur nauðsyn að fá heimild til að setja reglur um hámarksnotkun beitu í hvern róður. Álit sjútvn. er því, eftir að hafa talað við L. Í. Ú., að rétt sé að veita þessa heimild og mæla með, að frv. verði samþ. Það hefur viljað við brenna, að beitueyðsla hafi verið óstjórnlega mikil, og hefur það jafnvel orðið til tjóns bæði fyrir útgerðarmenn og sjómenn, og hafa útgerðarmenn þess vegna fallizt á að takmarka beitunotkunina. Það mun reynast erfitt að minnka beitunotkunina, nema allir bátar, sem sækja sömu mið, geri það samtímis. Ef beituskortur verður, þá þarf að spara, og hefur þess vegna verið óskað eftir þessari heimild til að takmarka beitunotkun. Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, en vísa til grg. Sjútvn. mælir með, að þetta frv. verði samþ.