13.02.1947
Efri deild: 72. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

112. mál, tilraunastöð háskólans í meinafræði

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Þetta mál er nú gamall kunningi hér, því að það er sama málið og var hér fyrir aukaþinginu í haust, um tilraunastöð að Keldum, og er hér borið fram í Nd. samkvæmt ósk Háskóla Íslands og er komið hingað. Það eru ýmsar breyt., sem þetta frv. gerir á l., sem nú gilda, en aðallega eru breyt. þó tvær, sem fyrir liggja, þ. e. í fyrsta lagi við fyrirsögn frv., því að það er ætlazt til, að það heiti frv. til l. um tilraunastöð háskólans í meinafræði, en áður var það í búfjármeinafræði. M. ö. o., þessi breyt. og svo viðeigandi ákvæði í frv. sjálfu, þau gefa til kynna, að stofnunin eigi að hafa fleiri verkefni en upprunalega var ákveðið eða heldur en l. frá því í haust gera ráð fyrir, og er það nánar tilgreint í grg.

Þá er önnur breyt., sem frv. gerir á gildandi l., að ákveðin er tala þeirra sérfræðinga, sem eiga að starfa við þessa stofnun, en í gildandi l. er ákveðið, að sérfræðingar skuli starfa við stofnunina, eftir því sem fé er veitt til þess á fjárl. Nokkur ágreiningur var um þetta á aukaþinginu. Þótti ýmsum óvarlegt um hnútana búið í frv., þar sem ráðh. mætti ráða sérfræðinga, eftir því sem hann teldi þörf á. Svo var þetta sett inn, að sérfræðingar skyldu ráðnir, „eftir því sem fé er veitt til á fjárl.“ En hér í þessu frv. er ákveðin tala þeirra og einnig laun. Eins og sést á nál. menntmn. á þskj. 370, þá hefur n. leitazt við að athuga þetta mál, m. a. tók hún sér ferð á hendur upp að Keldum, og er hún samþykk meginefni frv. En tvær breyt. leggur n. til, að gerðar verði á frv. Önnur er sú, að í frv. er gert ráð fyrir, að einn af þremur aðstoðarmönnum forstöðumanns hafi sömu laun og hann og taki laun eftir 5. flokki launal., en hinir eftir 6. fl. N. finnst þetta koma í bága við gildandi reglur launal. og annarra ákvæða, því að venjulega er það svo, að yfirmaður hverrar stofnunar hefur hærri laun en aðstoðarmenn hans. N. leggur því til, að það sé fastákveðið, að forstöðumaður taki laun eftir 5. fl., en aðrir sérfræðingar samkv. 6. fl. Ástæðan til þess, að svo var ákveðið, að einn af sérfræðingunum skyldi hafa sömu laun og forstöðumaður, var talin sú, að hann hefði nú sömu laun við starf í þjónustu ríkisins og forstöðumanninum eru ætluð. En þó að nauðsynlegt kunni að vera að taka tillit til þessa, þegar maðurinn er ráðinn, þá álítur n. réttara að fara aðra leið í því efni en að ákveða það í l. Það mætti t. d. hugsa sér þá leið að veita honum persónulega launauppbót í fjárl., en það er nokkur munur á því, hvort þessum eina manni er veitt persónuleg launauppbót í fjárl. eða hvort það er ákveðið í l., að fyrsti aðstoðarmaður skuli taka sömu laun og forstöðumaður, hver sem maðurinn er.

Þá er í frv. ákvæði, sem n. telur að vísu ekki skaðlegt, en kann þó ekki við, að standi í þessu frv., en það er 6. gr. frv., um það, að umlagning vegar að tilraunastöðinni á Keldum frá þjóðveginum um Mosfellssveit gildi ákvæði IV. kafla vegal. nr. 101 1933. Það hefur aldrei verið fyrr, að ákvæði um vegi væru sett inn í l. um vísindalegar stofnanir eða skóla eða neitt þess háttar ákvæði um vegi eigi að vera í vegal. Nú er það að vísu svo, að þessi vegur er innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, og kynni því að valda einhverjum mótmælum, að hann væri tekinn upp í þjóðvegatölu, en mér finnst, að það standi þarna svo sérstaklega á, að það sé sjálfsagt að taka þennan veg upp í þjóðvegatölu, og jafnvel þó að svo væri ekki gert, þá væri sjálfsagt að ætla fé úr ríkissjóði til þess að halda sæmilegum vegi við og leggja hann heim til þessarar stofnunar. Þetta er aðeins formsatriði, en n. leit svo á, að þessi gr. ætti ekki þarna heima. N. leggur til, að frv. verði samþ. með þessum tveim breyt. á þskj. 370.