24.02.1947
Efri deild: 79. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

108. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Herra forseti. Eins og þetta frv. ber með sér, er það flutt að tilmælum hæstv. samgmn. í Nd., og hefur það farið í gegnum allar umr. þar, án þess að gerðar væru við það nokkrar breyt. Og er þetta frv. nú komið þetta áleiðis hér í hv. d.

Það er ekki hægt að segja, að hér sé um stórvægilegt mál að ræða, heldur sé hér miklu fremur smávægileg lagfæring á þeirri löggjöf, sem þar er til grundvallar, og að sumu leyti til samræmingar.

Eins og frv. ber með sér, þá er það mergur þessa máls að samræma það tímabil, sem sérleyfin gilda og n. sú situr, sem l. gera ráð fyrir, að höfð verði til ráðuneytis um áætlanir bifreiða, þannig að það skuli vera 5 ára tímabil í staðinn fyrir 3 ár, eins og verið hefur. Einnig er gert ráð fyrir, að auk þeirra 5 aðalmanna, sem eigi sæti í n., skuli einnig vera, eins og gert er ráð fyrir í 1. gr., 5 menn til vara. Það er að vísu ekki tekið fram hér, hvernig þessir 5 menn séu kjörnir eða skipaðir, en ég geri ráð fyrir, að það sé sjálfsagt — og þarf því ekki sérstaklega að taka það fram —, að þeir skuli vera skipaðir á sama hátt og aðalmennirnir 5, sem fyrir eru samkv. l.

Eins og ég drap á, þá er gert ráð fyrir því, að n., sem hefur þessi sérleyfismál til meðferðar, skuli sitja 5 ár. Þessi till. um tímabilsbreytingu mun vera fram komin frá samgmrn., og mun það vera meiningin, að það verði til eins konar öryggis, að með þessu skapist líkur fyrir meiri festu í þessum málum. Það munu og þykja líkur fyrir því, að sérleyfishafar finni meira öryggi í þessu og muni fúsari til þess en ella að leggja í þann kostnað, sem þarf til þess að fá góðar og hentugar bifreiðar og fleiru í því sambandi.

Þá er í 2. gr. frv. drepið á póstflutninga, sem sérleyfishafarnir skulu hafa, og er það ákvæði sett til þess að hafa hönd í bagga með þeim málum nokkru meir en verið hefur, fyrst og fremst að það sé alveg á hreinu, til hvers sérleyfishafarnir séu skyldir í þessum efnum og á hvern hátt, sem virðist geta verið dálítið vafasamt eftir eldri reglum, þar sem þeir eiga að flytja eitthvert magn — væntanlega aðalmagn — pósts án endurgjalds. En hér eru þeir skyldaðir til þess að flytja yfirleitt allan meginhluta pósts, og verði þeim greitt fyrir það samkv. gjaldskrá, sem sett verður af ráðuneytinu. Eins og hér er gert ráð fyrir í þessu frv., er það álit miklu hreinna og tekið fastari tökum en gert er í l. nú. Hér er um aukna skyldu að ræða, sem sérleyfishöfunum er lögð á herðar með því að flytja yfirleitt allan póst, en fyrir ákveðna borgun.

Þá er í 3. gr. frv. gert ráð fyrir því, að n., sem gert er ráð fyrir að skipa samkv. 2. gr., og sú stofnun, sem fer með þessi mál, skuli hafa nána samvinnu. Sýnist það reyndar sjálfsagður hlutur. En hins vegar er það að gefnu tilefni, þó að ég kunni ekki um það að segja, að ástæða þykir til þess að gefa bendingu um það í lagasetningu, að þarna skuli vera samstarf, en ekki geti hver farið eftir eigin geðþótta.

Frv. var til umr. í samgmn. d., og voru allir nm., sem viðstaddir voru, sammála um að mæla með því, að það verði samþ. óbreytt. Einn nm. var fjarstaddur, eins og nál. ber með sér, enda hefur hann skrifað undir nál. með fyrirvara og hefur að því leyti öðlazt lausamennskubréf um afstöðu sína til málsins.

Að svo mæltu vil ég samkvæmt því, sem ég hef tekið fram, leggja til, að frv. nái samþykki hv. deildar.