27.11.1946
Neðri deild: 25. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

66. mál, menntun kennara

Jónas Jónsson:

Ég sé ekki ástæðu til að tala um þetta mál í heild, þar sem það er komið á þetta stig, en ég vildi víkja nokkrum orðum að því, sem hv. þm. A-Sk. sagði.

Það mun hafa verið árið 1932, að íþróttakennsla var hafin á Laugarvatni. Áður áttu menn ekki kost á slíkri kennslu innanlands og lærðu menn þá í ýmsum löndum og eftir ólíkum kerfum og olli þetta glundroða og þótti mjög óþægilegt. En síðan 1932 hefur Björn Jakobsson haldið uppi íþróttakennslu á Laugarvatni, með miklum dugnaði og ósérplægni. Þegar Íslendingar hugsuðu sér að keppa í íþróttum á erlendum vettvangi, sáu menn, að nauðsynlegt var fyrir íþróttafólk, að einhver miðstöð væri til íþróttakennslu og iðkana, og þegar ákveðið var á Alþingi 1932 að stofna til slíkrar kennslu, töldu menn, að skólinn væri bezt settur í sveit og þá helzt á Laugarvatni, og studdu þetta m. a. íþróttafrömuðirnir Benedikt Waage, Jón Þorsteinsson og Erlingur Pálsson og töldu, að skólinn yrði ekki rekinn með eins góðum árangri hér í bænum eins og á Laugarvatni. Síðan hefur verið lagt í kostnað á Laugarvatni og skilyrði bætt, en bærinn stækkað að mun. Að Laugarvatni þyrfti að reisa heimavistarhús fyrir 20–25 fasta námsmenn, sem tækju svo sem eins eða tveggja ára kúrsus, en fyrir þá, sem kæmu aðeins á stutt námskeið, þyrfti ekki eins vandað húsnæði. Mætti t. d. notast við sameiginlegt svefnloft.

Ég vil undirstrika það, sem stendur í bréfi íþróttafulltrúa, að óeðlilegt sé að hafa ákvæði í l. um, að flytja megi skólann, og vildi ég spyrja í því sambandi, hver ætti að flytja skólann. Þetta ákvæði er engri löggjöf samboðið, og tel ég því tvímælalaust, að samþykkja beri till. hv. þm. A-Sk.

Síðastliðið sumar lögðu íþróttamenn okkar á sig miklar ferðir til þess að keppa á erlendum vettvangi og urðu þá landinu til mikils sóma. En það er ekkert vit að halda uppi keppni við erlenda íþróttamenn, ef ekki er til í landinu góður íþróttakennaraskóli. Það er því mikil vanhyggja af hv. menntmn. að vilja ekki hafa fleiri en 2 fasta kennara við skólann. Greinar íþrótta eru margar og fjölbreyttar og því ekki hægt að ætlast til, að tveir menn geti verið spesíalistar í þeim öllum. Úti í Ameríku eru nú tveir Íslendingar, piltur og stúlka, að stunda íþróttanám, og hafa þau til þess styrk. Það minnsta, sem hægt væri að gera, væri að fá þau bæði, að loknu námi, að Íþróttakennaraskólanum, og þyrfti þó fleiri kennara, ef vel ætti að vera. Enginn vafi er á því, að skólinn er bezt kominn í sveit, enda höfum við þar fordæmi allra Norðurlandaþjóðanna og enn fremur Svisslendinga, er stefna að því að koma öllum íþróttacentrum sínum upp utan borganna. Erlingur Pálsson, sem manna mest hefur þjálfað lögregluna hér, hefur sagt, að hann hafi náð margföldum árangri þegar hann hafði lögregluþjónana í heimavist uppi á Laugarvatni. Menn geta gert sér í hugarlund, hvernig aðstæðurnar eru til æfinga, þegar sumir nemendurnir búa í Skerjafirði, aðrir í Kleppsholti o. s. frv. Úr þessu verður ekkert samhengi.