30.01.1947
Efri deild: 61. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

66. mál, menntun kennara

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil að gefnu tilefni frá 3. landsk. lýsa yfir því, að það er misskilningur að ég hafi sneitt að hv. menntmn. En þessi hv. þm. á það til að leggja sinn sérstaka skilning í ýmislegt, að minnsta kosti þegar ég tala. Ég sagði, að æskilegt hefði verið, að nál. hefði fylgt ýtarlegt yfirlit, en væni n. ekki um slælegt starf. Að vísu hefur mþn. setið í þessum málum, en það hefur upplýst, að hún hefur spekúlerað í allt öðru. — En í sambandi við það, að ekki hefði verið hægt að gera kostnaðaráætlun, skal ég geta þess, að á þinginu í fyrra var gengið frá mun stærri lagabálki, sem var tryggingalögin, og var þó mjög erfitt að gera grein fyrir kostnaðinum þeirra vegna.

Ég skal ekki ræða mikið um 50. gr., en ég er þar ekki á sama máli og hv. 3. landsk. Það eru margir aðrir embættismenn, sem þurfa að afla sér frekari þekkingar, enda hefur komið fram þáltill. um, að ríkið veiti fé til þess, að ýmsir embættismenn fái tíma til að fullkomna sig. Það er ekkert á móti því að veita fé til þess, en ég er alveg á móti því, að slík fríðindi séu veitt í lögum.