28.02.1947
Efri deild: 82. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (1767)

66. mál, menntun kennara

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir vænt um, að hæstv. menntmrh. er hér viðstaddur þessar umr., enda hefur þessu máli, að mér skilst, verið frestað til þess að hann gæti sett sig inn í efni frv., sem hér er um að ræða, sem er rétt, ef þetta frv., sem gert er ráð fyrir, að verði að l., á að verða eitthvað meira en pappírsgagn.

Ég skal þá gera grein fyrir brtt. mínum. Um flestar brtt. er það að segja, að þær eru í samræmi við það, sem ég hef haldið fram um fræðslul. yfirleitt. Ég álít, að þessi ákvæði eigi að standa í reglugerð, en ekki í l., þ. e. ákvæðið um kennslustundir kennara, og þarf ég ekki að ræða frekar um það. Það er kunnugt, hver afstaða mín hefur verið gagnvart því máli.

Í 15. gr. frv. er sagt, að stofnuninni skuli veita forstöðu sérstakur maður, sem skipaður sé sem prófessor. Ég tel ekki ástæðu til þess að skipa málinu á þennan hátt. Ef brtt. mín verður samþ., þá er gert ráð fyrir, að prófessor í forspjallsvísindum og almennum vísindum annist þar kennslu eftir því, sem samrýmist starfi hans. Að öðru leyti skal kennslan falin aukakennurum, er heimspekideildin ræður, og greiðist kostnaður úr ríkissjóði, eftir því sem fé er veitt í fjárl. Það er þá gert fullkomlega ráð fyrir, að þessi stofnun fái þá kennslukrafta, sem hún þarf, þegar hún er komin á fót, en að öðru leyti verði hún undir stjórn háskólans.

Ég skil mjög vel þá menn, sem sjá ekkert athugavert við það, þó að hrúgað sé upp prófessorum við háskólann, eins og gert hefur verið undanfarið, en ég sé ekki, að beri nein nauðsyn til þess að bæta einum prófessor þarna við. Þess vegna vænti ég, að mín brtt. verði samþ.

Um 3. brtt. mína við 20. gr. er það að segja, að ég er yfirleitt á móti því, að verið sé að setja sérstakar skólanefndir. Þetta er einn af æðri skólum, og þeir heyra flestir undir ráðh. og fræðslumálastjóra. Ég álít, að skólan. hafa þarna í raun og veru mjög litla þýðingu, og veit mörg dæmi til þess, að slíkt samstarf hefur ekki gengið sem greiðlegast, og mætti nefna í því sambandi mörg dæmi, og má þá minna á ósamkomulagið, sem verið hefur t. d. við skólann á Akranesi og fleiri skóla í landinu. Ég vonast því eftir, að till. mín verði samþ.

Um brtt. við 21. gr. er það að segja, að hún er afleiðing af því, sem ég hef borið fram, og sama máli gegnir um 22. gr., og brtt. við 30. gr. er um íþróttaskólann, hún er líka afleiðing af hinum og í samræmi við þær. Ég sé ekki, hvers vegna á að vera sérstök n. yfir íþróttaskólanum, frekar en yfir öðrum skólum í landinu, og byggist á því sama. 31. gr., þarf ekki að ræða um.

Þá er brtt. við 38. gr., og er hún í sambandi við Húsmæðrakennaraskóla Íslands. Ég veit ekki, hvort hv. n. hefur átt tal um þetta mál við forstöðukonu skólans. Ég hef rætt um þetta við hana, og hún hefur verið mér fullkomlega sammála um, að þessi brtt., sem ég hef borið fram hér, væri ekki aðeins eðlileg, heldur líka mjög æskileg. Annaðhvort hefur skólastjórinn sagt mér ekki satt eða sagt n. allt annað eða þá, að n. hefur gengið þvert á móti vilja skólastjórans í málinu. Skólastjórinn hefur tjáð mér, að í fyrsta lagi telji hann enga þörf á að hafa 38. gr. frv., og í öðru lagi séu engar líkur til þess, að það ákvæði verði framkvæmt, eins og reyndar hv. frsm. tók fram, að það væri sjálfsagt að hafa þetta, þó að það yrði ekki framkvæmt. Skólastjóri hefur tjáð mér enn fremur, að það fyrirkomulag, sem verið hefur með sumarkennsluna, hafi verið heppilegt, og sé ekki ástæða til þess að breyta neitt þar um, og þess vegna þarf þessi gr. ekki að standa í frv. Forstöðukonan hefur einnig tjáð mér, að í framtíðinni sé hér ekki um að ræða nema fámennan hóp, 10–12 stúlkur, og ekki verði nemendur útskrifaðir frá skólanum nema annað hvert ár. Þá sér hver maður, hvaða vit er í því að fara í því sambandi að setja upp stórbú, — hvort sem það væri nú á Korpúlfsstöðum eða annars staðar í nágrenni Rvíkur, — sem kostaði tugi millj. kr. að koma upp. Forstöðukonan hefur tjáð mér, að ekki væri nauðsynlegt, að byggingin rúmaði heimavist, en skólanum sé á öðru meiri þörf en heimavist fyrir nemendur. Og ef fara á inn á þá braut að skaffa heimavist fyrir alla nemendur, sem stunda nám hér í Rvík, en eiga ekki hér heima, þá verður að afla einhverra tekna til þess. Það þýðir ekkert í þessu sambandi að benda á Stúdentagarðinn. Hann er byggður með frjálsum samskotum og fyrir fé, sem háskólinn hefur að einhverju leyti yfir að ráða. — Ég álít því, að brtt. mín við 39. gr. frv. eigi tvímælalaust að samþykkjast.

Þá ber ég fram brtt. við 46. gr., um, að gr. falli niður, þ. e. gr. um skólanefnd. Skólastjórinn sjálfur er á móti því, að slík skólanefnd sé sett upp, en telur betra að hafa samband við fræðslumálastjóra um stjórn skólans, og því eigi þessar tvær málsgr. í 46. gr. frv. að falla niður.

11. brtt. er við 47. gr., frv., um að orðið „skólanefnd“ falli niður úr þeirri gr., sem er sjálfsögð brtt., ef brtt. við 46. gr. verður samþ.

Þá kemur 50. gr. frv., um þessi sérréttindi, sem eftir þeirri gr. kennarar eiga að fá að njóta. Hef ég lagt til, að sú gr. félli með öllu niður úr frv., og er það alveg í beinu áframhaldi af því, sem ég hef haldið fram hér áður um það atriði. Ég tel, að ákvæði 50. gr. frv. eigi ekki að vera í l. Hv. þm. sagði, að það væri ranglátt að fella þetta ákvæði burt úr þessu frv. Ég tel það líka ósamræmi við önnur l., sem samþ. hafa verið, að fella það niður. En ég tel það að fella þetta ákvæði niður úr þessu frv. spor í þá átt að byrja að lagfæra ólag, sem komizt hefur inn í löggjöf okkar í sambandi við aðra skóla, þannig að þetta væri byrjun á því að nema slík ákvæði burt úr öllum l. um kennara, sem svona ákvæði hafa komizt inn í, því að það álít ég, að ætti að gera. Ég tel, að slíkt ákvæði sem þetta hefði aldrei átt að setja í nein fræðslul., og ætti þá ekki fremur að vera í þessum l. heldur en öðrum.

Ég vænti, að brtt. mínar verði samþ.