28.02.1947
Efri deild: 82. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

66. mál, menntun kennara

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að segja mikið um þetta mál. Hv. frsm. n, mun hafa gert grein fyrir skoðun n. um málið, þannig að ekki mun þörf að bæta þar um. — Það eru aðeins örfá atriði, sem ég vil minnast hér á, sem ræða hv. þm. Barð. gaf mér tilefni til, sérstaklega sökum þess, að ég er nú form. þeirrar n., sem hér á hlut að máli. Hv. þm. Barð. dró t. d. í efa, að n. hefði rætt við skólastjóra húsmæðrakennaraskólans. En ég vil þá upplýsa það, að n. hefur rætt við þann skólastjóra, ekki einu sinni, heldur oftar en einu sinni. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, að skólastjóri þessa skóla var ákveðið á móti ákvæðinu um heimavist, eins og það var í frv. En ég veit ekki betur en hún sé alveg samþykk þeirri breyt., sem n. ber fram, að það sé ætluð heimavist við skólann, þegar hann fær sitt sérstaka húsnæði, og þá ekki sízt með tilliti til þess, að henni hefur verið sýnt fram á það af n., að þörf væri á, að stúlkur utan af landi gætu sótt skólann. Ég hygg, að í raun og veru sé ekkert ósamræmi milli þess, sem skólastjóri talaði við hv. þm. Barð, annars vegar og n. hins vegar. Annars vegar er um ákvæði frv. að ræða, en hins vegar er um brtt. n. að ræða.

Ég hygg, að ég megi einnig fullyrða það, bæði af viðtali við skólastjóra þessa skóla og af viðtali við fræðslumálastjóra, að það sé alls ekki tilætlunin viðvíkjandi húsmæðrakennaraskólanum að setja upp stórbú hér í grennd við Rvík, sem rekið væri af skólanum, heldur muni vera miðað í frv. við það fyrirkomulag, sem nú er, að skólinn hafi aðgang að búrekstri á sumrin, eins og nú er, og hygg ég, að skólastjórinn sé mjög ánægður með þetta fyrirkomulag.

Það mætti náttúrlega deila um það og getur verið álitamál, hvort skólanefnd eigi að vera við einn slíkan skóla eða annan. Þó held ég, að ekki verði deilt um það, að skólanefnd er náttúrlega alveg sjálfsögð við þann æfingaskóla, sem ráðgert er að stofna samkv. þessu frv. Sá skóli er barnaskóli, og það er skólanefnd við alla barnaskóla landsins. Og hvers vegna ætti ekki að vera skólanefnd við þennan skóla eins og aðra barnaskóla?

Íþróttakennaraskólinn hefur nú talsvert mikla sérstöðu, þar sem hann er í sambandi við annan skóla. Og það mun þykja eðlilegt og hagkvæmt, að t. d. skólastjórinn við Laugarvatnsskólann geti haft aðgang að því að geta haft eitthvað um íþróttakennaraskólann að segja. Hið sama má segja að því er snertir íþróttafulltrúa ríkisins. Þess vegna er næsta eðlilegt, að skólanefnd sé við þennan skóla, eins og gert er ráð fyrir í frv. — Hitt skal ég svo játa, að mér sýnist það orka mjög tvímælis, hvort nauðsynlegt er að hafa skólanefnd við húsmæðrakennaraskólann, sem er hér í Rvík rétt undir handarjaðri á fræðslumálastjórninni. Þar sé ég fyrir mitt leyti ekki beina þörf á skólann.

Svo er þessi brtt. hv. þm. Barð. við 50. gr. frv., um að hún falli niður. Það hefur nú verið deilumál á þinginu áður tilsvarandi ákvæði í l. Það kom ekki fram nú hjá hv. þm. Barð., en hann hefur áður í umr., um skólamál æ ofan í æ talað um „frí fyrir kennara tíunda hvert ár“. Í fyrsta lagi er það nú að segja, — þó að ekki þurfi beinlínis að leiðrétta það út af ræðu hans nú, — að hér er ekki um tíunda hvert ár að ræða, heldur er beinlínis tekið fram, að engum kennara megi veita þetta frí nema einu sinni á æfinni. Og þetta er enn fremur aðeins heimild, en ekki neinn réttur, sem kennarar geti heimtað. Auk þess er þetta ekki neitt „frí“ í eiginlegum skilningi. Þetta orlof ekki að veita til þess, að kennari hvíli sig. Það á að veita það til þess að hann starfi og hann verður að gera grein fyrir því starfi að því loknu og missa fríðindin, ef hann ekki getur gert fullnægjandi grein fyrir því. — Því hefur náttúrlega verið haldið fram, bæði af hv. þm. Barð, og fleirum, að það væru fleiri embættismenn, sem kynnu að koma í kjölfarið og heimila sams konar fríðindi sem þessi. En ég er nú ekki viss um, að nokkur starfsmannastétt landsins hafi eins mikla þörf á því eins og einmitt kennarastéttin að geta einu sinni á æfinni losað sig við starf eitt ár, til þess að fullkomna sig í sínu starfi, t. d. í útlöndum. Það mundi þá helzt vera læknastéttin. En ég hygg, að þegar fyrir löngu sé nokkurn veginn séð fyrir því, að efnalitlir læknar fái frí frá störfum til þess að sigla til útlanda og stunda þar framhaldsnám. Mörg dæmi hef ég vitað um það, þó ég muni ekki beinlínis eftir, að svo hafi verið ákveðið í l. — Það er svo langt frá því, að ég sé sammála hv. þm. Barð. um þetta atriði, að ég held, að ákvæði 50. gr, frv. sé eitthvað þarfasta ákvæði, sem sett hefur verið inn í hin nýju l. um skólakerfi landsins. Þetta er mín skoðun. Það er nú búið að breyta skólakerfinu á síðasta þingi, þannig að það verður mörgum millj. kr. dýrara en áður var. Og það var gert fyrir forgöngu hæstv. fyrrv. ríkisstj., sem hv. þm. Barð. studdi. Það hefur sjálfsagt verið margt gott í þeim breyt., sem þá voru gerðar á skólalöggjöfinni, en þó því aðeins kemur það að gagni, að séð sé um það, að nægilega hæfir menn starfi að kennslunni og eftirlitsmálum við fræðslustarfið. Og mér finnst, að það sé einhver sú mesta heimska, sem hægt sé að gera, að eyða tugum milljóna kr. við rekstur skóla, en hafa svo ekki tryggingu fyrir því, að við þessa skóla starfi hæfir kennarar. Náttúrlega skal ég játa, að ekki er full trygging fyrir því, að þessir menn, sem verða þess aðnjótandi að fá lausn frá starfi einhvern tíma á ævinni í eitt ár til þess að fullkomna sig í starfinu, verði svo ágætir, að ekki geti betra orðið. En þegar þess er gætt, að fræðslumálastjórnin á að velja þessa menn, — það liggur ekkert fyrir um það, að aðrir kennarar verði þess aðnjótandi, — þá má gera ráð fyrir, að hún velji þá, sem hæfastir eru. Og það er ég viss um, að yfirleitt verða þessir menn hæfari eftir en áður, — með kannske örfáum undantekningum, sem alltaf má gera ráð fyrir, — en höfuðreglan mun verða, að þessir menn verði hæfari sem kennarar eftir þetta orlof en áður. — Nú, og svo er það, eins og hv. frsm. tók fram, að þegar þetta er komið inn í l. um aðra kennara og aðra skóla, þá mætti undarlegt heita að fella þetta niður að því er snertir þá kennarana, sem eiga að mennta aðra kennara. Það mætti mjög undarlegt heita, og er ekkert víst, þó að t. d. hv. þm. Barð. tækist að fella þessa gr. úr þessu frv., að hann gæti komið tilsvarandi formi — „lagfæringu“, sem hann kallar — á hina almennu fræðslulöggjöf í landinu og l. um gagnfræðaskóla og l. um menntaskóla. Það er ekkert víst. Og þá gæti farið svo, að það væru einmitt aðeins kennaraskólakennarar, sem ekki hefðu rétt til þessara fríðinda, en allir aðrir kennarar hefðu hann. — Ég vona, að jafnvel hann sjálfur, hv. þm. Barð., sjái, að þessi till. hans til breyt. á frv. að því er 50. gr. snertir er alls ekki frambærileg eins og sakir standa. Ef þessi fríðindi ættu ekki að gilda til handa kennaraskólakennurum, þá ætti að byrja á því að nema tilsvarandi ákvæði úr hinum öðrum l., sem það hefur verið sett inn í, en ekki lofa því aðeins að gera það á eftir, eftir að búið væri að koma þessu ákvæði í þessu frv. fyrir kattarnef.