28.02.1947
Efri deild: 82. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

66. mál, menntun kennara

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það hefur komið fram, að n. er ekki eiginlega sammála um afgreiðslu málsins. Því að hv. 1. þm. Eyf. lýsti yfir, að hann gæti fellt sig við ýmislegt í mínum brtt. (BSt: Bara eitt atriði). Enda kom það berlega fram, sem ég hélt fram, að skólastjóri húsmæðrakennaraskólans er ekki sammála n. í þessu máli.

Það, sem hv. 1. þm. Eyf. lagði sérstaka áherzlu á í ræðu sinni, var, að skólalöggjöfinni hefði verið breytt af stjórn, sem ég hefði stutt. Ég vil leyfa mér að benda á, að ég hef alltaf haft ákveðna skoðun í þessum skólamálum, hvaða ríkisstj. sem setið hefur, og greitt atkv. út frá því sjónarmiði. En það kom fram, að það hefur ekki verið tilfellið með hv. 1. þm. Eyf., því að hann hefur skoðanir til skiptanna, og notar eftir því, hverjir eru við stjórn á þjóðarskútunni. Hann hefur verið á móti fræðslulöggjöfinni, þar til annar ráðh. var kominn í menntmrh.-stólinn en var, þegar fræðslul. voru sett. Nú þykir honum allt gott í þessum efnum, sem kemur frá allt öðrum ráðh. en þeim, sem nú situr í menntmrh.-stólnum, af því að það er maður af öðrum flokki, sem nú fer með menntamálin heldur en þegar fræðslul. voru sett.

Í sambandi við ummæli hv. 1. þm. Eyf. um 50. gr. frv., þá get ég ekki séð, að nein afgerandi rök hafi komið frá hans hendi í þessu atriði málsins. Það má að vísu kalla rök út af fyrir sig, að ósamræmi væri í því að fella þetta ákvæði úr þessu frv., ef ekki væri hægt að fella sams konar ákvæði úr öðrum l. En ef þingfylgi er fyrir því að fella þetta ákvæði úr þessu frv., þá ætti það líka að vera fyrir hendi til þess að fella hliðstætt ákvæði úr öðrum l. Ég sé ekki, að ástæða sé til þess, að ríkið kosti þannig í orlofi einu sinni á hverjum tíu árum mann, sem hefur þriggja mánaða frí á hverju ári á fullum launum. En það er það, sem þessir menn vilja, sem vilja samþ. 50. gr. frv. Sumir kennarar hafa meira að segja meira frí. Ég hygg, að þessir menn, kennararnir, hafi undirbúið sig þannig undir sitt lífsstarf, að þeir þurfi ekki að fá þessi fríðindi til þess að bæta þar um. En ef þess þyrfti samt sem áður með, væru þessir menn ekki of góðir til þess að nota til þess þennan þriggja mánaða frítíma sinn, sem þeir hafa á hverju ári á fullum launum. Auk þess ber þess að gæta, að nú er stefnt að því að láta þessa menn læra innan lands, og ættu þeir því ekki að þurfa að fara til annarra landa til þess að læra betur. Þeim er enn fremur leyft að sækja ýmis mót, til þess að aðrir menn geti talað við þá og kennt þeim með samræðum. Ég sé ekki ástæðu til að samþ. þessi fríðindi, sem 50. gr. inniheldur fyrir kennara. Hins vegar eru þetta fríðindi, sem kennarastéttin hefur sótt allmikið eftir, undir stjórn fyrrv. hæstv. menntmrh. Er ekki hægt að segja það til áfellis á þann mann, sem þá skipaði sæti menntmrh. Hann hefur verið tryggur sinni stétt. Það er allt og sumt.

Í sambandi við yfirlýsingu hæstv. ráðh. mun þetta verða tekið til athugunar í fjvn., hvaða stefnu hann lýsir. Hann hefur, að mér skilst, talið sig bundinn í báða skó af annarra manna vilja um að veita fé til skólabygginga. Hann hefur haldið því fram, að hann yrði að halda sig við till., sem gerðar eru af öðrum. Og með því finnst mér hann leggjast á þá sveif að binda hér bagga, sem ekki sé þörf á að binda á þessu stigi málsins, þegar hann leggur til, að 38. gr. frv. verði samþ. Og hvað sem sagt er um, að þetta og þetta skuli skilið svo eða svo, þá heimilar 38. gr. frv. a. m. k. að setja upp búrekstur hér í nágrenni Rvíkur fyrir þennan skóla, og tel ég þá miklu varlegra að fella gr. alveg niður og hafa það fyrirkomulag á þessu, sem nú er í sambandi við þennan skóla. Um þetta atriði verður náttúrlega annað hvort samþ. 38. gr. eða mín brtt. Ég sé ekki, hvers vegna þykir nauðsynlegt, að þetta ákvæði standi í l. þessum, til þess að gefa kost, ekki þessum hæstv. ráðh., heldur eftirmanni hans á því að veita svo og svo margar þús. kr. til þess að uppfylla þetta ákvæði l.