28.11.1946
Efri deild: 22. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

77. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er samhljóða frv., er flutt var á síðasta þingi um sama efni, en það frv. náði þá ekki fullnaðarafgreiðslu. Það var afgr. í annarri d. þingsins, en náði ekki að komast í gegnum hina og dagaði uppi. Það fer fram á, að l. um Ferðaskrifstofu ríkisins frá 1936 verði aftur látin koma til framkvæmda, en þeim var frestað með bráðabirgðabreyt. nokkurra l. 1940. Það er nú flutt í alveg sama formi og á síðasta reglulegu Alþ., þótt ef til vill hefði átt að gera á því nokkrar breyt. Nokkrar brtt. hafa borizt til ráðuneytisins, og mun það láta þær í té þeirri n., sem fær málið til meðferðar.

Frv. er, eins og ég hef áður sagt, um það, að l. komi á ný til framkvæmda, og er það ekki sízt nauðsynlegt vegna orlofsl., er sett voru í millitíðinni, sbr. 1. gr. frv., en þar segir: „Ferðaskrifstofa ríkisins skipuleggur ódýrar orlofsdvalir og orlofsferðir og gerir sér far um að semja um afslátt á dvalarkostnaði og fargjöldum með farartækjum ríkisins og einkafyrirtækja fyrir hópferðir, sem farnar eru fyrir orlofsfé. Skal ferðaskrifstofan leita samvinnu við stéttarfélög launþega, til þess að orlofslöggjöfin geti komið að sem beztum notum. Hið sama gildir um hópferðir, sem stofnað er til af bændum landsins.“

Þegar stríðið skall á, lokaðist fyrir ferðamannastrauminn og verkefni ferðaskrifstofunnar féll að mestu niður, og l. var því frestað eða þau „suspenderuð“. En nú gera orlofsl. og ferðamannastraumurinn þessa starfsemi óumflýjanlega að nýju. Í sumar voru uppi háværar raddir um það, að þessi starfsemi yrði tekin upp að nýju. En þar eð l. höfðu ekki fengið fullnaðarafgreiðslu hér í þinginu, varð það að ráði, að Skipaútgerð ríkisins setti á fót ferðaskrifstofu til bráðabirgða, og hygg ég rétt að skýra frá þeim árangri, er náðist í sumar hjá þessum vísi að ferðaskrifstofu, sem stofnað var til í samráði við Skipaútgerð ríkisins.

Þegar l. um Ferðaskrifstofu ríkisins voru sett 1938, bar til þess brýna þörf, enda var strax mikið leitað til hennar, bæði af útlendingum og innlendu fólki. Hún var stofnuð í því skyni að veita ókeypis upplýsingar um allt, er laut að ferðalögum innanlands og greiða yfirleitt fyrir ferðamannastraumnum, eftir því sem unnt var, enn fremur að sjá um hópferðir um landið og annast fyrirgreiðslu í því efni, því að það eru ekki aðeins útlendingar, heldur einnig Íslendingar, sem eiga erfitt með að ferðast um landið og átta sig á því, hvernig heppilegast sé að ferðast og hversu kostnaðarsamt. Þetta telur ferðaskrifstofan skýrt hafa komið í ljós í sumar. Fjölmargir útlendir og innlendir menn sóttu ráð til hennar í þessu efni og hlutu fyrirgreiðslu. Sérhver útlendingur, sem ferðast hér um og er óánægður með ferðalag sitt, ber landinu illa söguna, en sá, er ferðast og er ánægður með ferðalagið, ber því vel söguna. Þegar skrifstofan hóf starfsemi sína í sumar, sendi hún bækling til ýmissa fyrirtækja og hótela, enn fremur fékkst hann á skrifstofunni, en í bæklingi þessum var greint frá áætluðum ferðum. Eins og þessi áætlun ber með sér voru ráðgerðar 27 ferðir, þær voru auglýstar og mönnum ætlað að tilkynna þátttöku sína til skrifstofunnar. Sumar þessar ferðir voru að vísu aldrei farnar, aðrar voru aftur á móti farnar oft, og ferðirnar urðu alls helmingi fleiri en áætlað var í upphafi, eða 55. Þátttakendur voru alls um 2000, af þeim voru 300 útlendingar. Eftir upplýsingum að dæma, er ég hef fengið, tel ég, að fólk hafi verið ánægt með þessa starfsemi. Fyrirgreiðsla var greiðlega látin í té mönnum að kostnaðarlausu. Megináherzla var lögð á ódýrar ferðir og að afla gistingar og annarra þæginda og nauðsynja á ferðalögum fyrir eins sanngjarna greiðslu og unnt var. Sem dæmi um það, hve langt er hægt að komast í þessu efni, vil ég geta þess, að útlendingur nokkur ferðaðist 3000 km vegalengd á vegum skrifstofunnar fyrir 588 krónur. Hann fór frá Reykjavík að Gullfossi og Geysi, austur í Þjórsárdal og Skálholt, um Norðurland, Austurland, Vestfirði, Borgarfjörð og um Kaldadal. Þetta sýnir aðeins, hve langt er hægt að komast með skipulögðum hópferðum. Þetta ferðalag um marga helztu sögustaði og alla landsfjórðunga kostaði aðeins 588 krónur.

Þá lagði ferðaskrifstofan mikla áherzlu á að útvega góða fararstjóra, kennara, náttúrufræðinga, blaðamenn, góða málamenn og fornfræðinga. Talið er, að val þeirra hafi vel tekizt, og stjórnuðu 12 fararstjórar ferðum á vegum skrifstofunnar í sumar.

Ég veit ekki, hvort hv. dm. kæra sig um að heyra meira um starfsemi ferðaskrifstofunnar á s. l. sumri, en það hefur sannazt, að hennar er full þörf, og sú þörf er sífellt að aukast. Tekjur af ferðalögum skrifstofunnar urðu í sumar kr. 131845.45, en gjöld kr. 116051.25, og tekjuafgangur því kr. 15794.20. Skrifstofukostnaðurinn varð kr. 21730.95, og bein útgjöld, er ríkið þurfti að greiða, urðu því aðeins kr. 5936.75, og er það eftir atvikum vel sloppið, enda var allt kapp lagt á að spara og fara vel með. Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta. Ég er að sjálfsögðu fús til að veita þeirri n., er fær mál þetta til meðferðar og væntanlega verður hv. allshn., allar frekari upplýsingar, er ég get, um þetta mál, og þær eru allmiklar í fórum mínum um ferðamannahreyfinguna, bæði ferðalög innlendra manna og útlendra. Þetta mál er svo aðkallandi, að aðgerðir þola enga bið. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. þessu verði vísað til hv. allshn., og vænti þess, að það verði afgr. út úr hv. Ed. eins og það hefur fengið afgreiðslu í hv. Nd.