28.11.1946
Efri deild: 22. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

77. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Í sambandi við það frv., sem hér er til umr., er það mál, sem hv. þm. Barð. var nú að nefna, og raunar fleiri, sem eru í nánum tengslum. Í fyrsta lagi er þetta frv. um Ferðaskrifstofu ríkisins. Í öðru lagi er hótelbyggingin í Rvík, en það mál var afgr. frá síðasta þingi. Í þriðja lagi er frv. til laga um gistihúsabyggingar úti um land, sem er til athugunar í ráðuneytinu og hjá vegamálastjóra og póst- og símamálastjóra og bráðlega mun koma fram. Í fjórða lagi er umferðamiðstöð í Rvík og breyt. á sérleyfislögunum. Undirbúningi þess máls er nú að verða lokið, og ég vonast til að geta bráðum lagt það fyrir þingið. Mikil vandamál hafa skapazt í sambandi við sérleyfismálin, en ég vænti, að lausn fáist á þeim. Öll þessi mál, sem ég hef nú minnzt á, eru tengd ferðamannastraumnum, og ég vænti að geta komið þeim öllum áleiðis.