05.03.1947
Efri deild: 85. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

77. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Gísli Jónsson:

Ég vil mjög taka undir það mál, sem hv. 1. landsk. hefur flutt í sambandi við niðurfelling 7. gr. laga. Mér er vel ljóst, að 7% gjaldið hefur frá upphafi verið ætlað til þess að standa undir því, sem hann minntist á, auk þess sem nokkru af þessu gjaldi hefur verið varið til þess að styrkja gistiskála og gistihús úti á landi, sem nauðsynlegt er að styrkja, ef það eiga að verða nokkrir möguleikar á því að halda uppi hópferðum um landið, eins og ætlazt er til með ferðaskrifstofunni. Það eru að rísa upp hingað og þangað úti um landið gistiskálar til þess að létta því af sveitabæjunum að þurfa að taka á móti ferðafólki.

Ég veit, að sumir af þessum gistiskálum eiga í mjög mikilli fjárþröng, og þegar hér er kippt burtu 5% gjaldinu af farseðlum og allur kostnaður er settur á sjóðinn, sem kemur inn fyrir 7% gjaldið, þá finnst mér vera rýrðir möguleikar til þess að standa undir þessum útgjöldum, nema það komi þá styrkur beint frá ríkissjóði. Auk þess vildi ég heyra það frá hv. frsm., hvort meint er hér með 1. gr. frv., þar sem talað er um að skipuleggja ódýrar ferðir, að það eigi að gerast á kostnað þessa gjalds, hvort það er meint með l., að hér eigi að skipuleggja svo ódýrar ferðir, að ferðaskrifstofan hafi ef til vill stórkostleg útgjöld af þeim ferðum. Ef svo er, þarf að sjá fyrir nægilegum tekjum, og því síður getur þá 7% gjaldið staðið undir því, sem því er ætlað. Mér er kunnugt um, að póst- og símamálastjóri ætlaði að láta byggja hér póstafgreiðslustöð fyrir þetta gjald, en fyrir það er tekið, ef gjaldið á að renna allt til ferðaskrifstofunnar. Þetta vil ég biðja n. að athuga. Ég sé enga þörf á að taka af 5% gjaldið, því að það er full þörf fyrir það í sambandi við allar þessar ferðir að byggja skála og afgreiðslustöðvar.