05.03.1947
Efri deild: 85. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

77. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Af því að beint hefur verið til mín ákveðnu atriði, ætla ég að segja hér fáein orð. Við 1. umr. þessa máls gerði ég allýtarlega grein fyrir starfsemi ferðaskrifstofunnar árið sem leið og sýndi fram á, að þátt hún útvegaði ódýran farkost og þægilega flutninga hér innanlands, hefði starfsemin að miklu leyti staðið undir sér. Ég man nú ekki þær tölur, er ég las þá hér upp, en hallinn var hverfandi lítið brot af umsetningunni. Tekjur og gjöld skrifstofunnar voru eitthvað á annað hundrað þúsund krónur, en reksturshalli innan við 10 þúsund krónur, að mig minnir. Hv. þm. Barð. man þetta eflaust, því að hann var hér viðstaddur við þá umr. og talaði þá eitthvað man ég. Þannig dreg ég það af fenginni reynslu, að vonir standi til þess a. m. k., að ferðaskrifstofan verði ekki þungur baggi á hinu opinbera, ef hún er skynsamlega rekin. Þó fer það mikið eftir því, hve miklu er varið til auglýsingastarfsemi utanlands, sem er dýr, en út í það var ekki farið s. l. ár. Þá var ekki talið út af nauðsynlegt að færa út kvíarnar til útlanda.

Nú er það svo, að sérleyfisgjaldið var upphaflega lagt á í því augnamiði,, að ferðaskrifstofan fengi það, og það rann óskert til hennar, á meðan hún starfaði. En síðar var það notað til ýmislegs annars, til að styrkja hótelbyggingar í smáum stíl t. d., og í þriðja lagi hefur verið hugsað, að umferðamiðstöð yrði styrkt af því gjaldi. Sú umferðamiðstöð og ferðaskrifstofan koma til með að hafa náið samstarf, og hefur komið til orða, að skrifstofan yrði til húsa í umferðamiðstöðinni, því að starf þeirra verður nátengt, þótt það sé ekki hið sama. Ég get nú ekki að þessu sinni, fremur en frsm. hv. allshn., upplýst, hve miklu þetta 7% sérleyfisgjald nemur árlega, en mér kæmi ekki á óvart, þótt með því væri unnt að standa undir hvort tveggja, ferðaskrifstofunni og umferðamiðstöðinni, ef ekki væri farið út í stórfenglegar athafnir, sem kæmu þá til athugunar og samþykktar hér á Alþ. Þótt þetta gjald verði notað til umferðamiðstöðvarinnar, á ferðaskrifstofan forgangsrétt á því samkv. því, sem ég hef bent á, en ég tel líklegt, að það ætti að nægja báðum þessum fyrirtækjum, ef skynsamlega væri á haldið og ekki ráðizt í stórfenglegar athafnir, eins og ég sagði áðan. Ég veit að vísu, að í frv. um umferðamiðstöðina er gert ráð fyrir, að 4/5 hlutum gjaldsins verði varið árlega til byggingar hennar, en ég tel raunar ekki rétt að „fixera“ þetta þannig, heldur láta óbundið, hve mikill hluti gjaldsins rennur til hvors fyrirtækis um sig, ef ætlunin er að það nægi báðum.