11.03.1947
Efri deild: 89. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

191. mál, einkasala á tóbaki

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég hygg þetta frv. hafi ekki verið borið fram af hv. fjhn. Nd. sem heild, heldur af meiri hl. hennar. Mér finnst, að það væri ekki óeðlilegt, að skotið yrði á nefndarfundi til þess að ræða frv. Þetta kemur flestum hv. dm. á óvart. Fyrir mitt leyti vil ég segja um þessa gífurlegu hækkun á almennri neyzluvöru, að ég get ekki fallizt á hana, meðan allt er á huldu um stefnu þá, sem tekin verður varðandi fjármál ríkisins. Auk þess er þess að gæta, að þetta hefur nokkur áhrif á vísitöluna, ég veit ekki hvað mikið, en það verður svo aftur að greiða niður með fé úr ríkissjóði. Svo að þessu leyti tel ég þetta vera eltingaleik við skuggann sinn. Ég legg til, að málinu verði vísað til hv. fjhn., svo að hún geti skotið á fundi, áður en málið kemur til 2. umr.