25.02.1947
Efri deild: 80. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

111. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Þegar málið var hér síðast til umr., kom fram fyrirspurn frá dómsmrh. um það, hvers vegna ráð væri fyrir því gert, að kennarar í íslenzkum fræðum skyldu einir dæma um prófverkefni við meistarapróf í íslenzkum fræðum, en ekki dómnefnd eins og við önnur próf innan háskólans. Ég hef rætt þetta mál við rektor háskólans og forseta heimspekideildarinnar, prófessor Einar Ól. Sveinsson. Hann upplýsti mig um það, að þetta væri sama fyrirkomulag og við Hafnarháskóla, fyrirkomulagið í Svíþjóð hefði einnig verið athugað, en ekki þótt eins heppilegt, því þar er á valdi eins manns að dæma úrlausnarefnið. Prófessor Einar Ól. Sveinsson benti á, að kennarapróf í íslenzkum fræðum veitti atvinnuréttindi í þjóðfélaginu og væri mælikvarði á þá kunnáttu, sem nemendur hefðu öðlazt í deildinni undir handleiðslu kennaranna, og væri því eðlilegt, að dómnefnd dæmdi þar um úrlausnir, en meistaraprófið væri vísindalegur stimpill, sem unnið væri til, án íhlutunar kennara, og ef kennurum í íslenzkum fræðum væri ekki trúað til að dæma um slíkar vísindalegar ritgerðir, þá væri þeim vart treystandi til þess að kenna í deildinni. Annars kvaðst Einar Ól.Sveinsson ekki vera á móti dómnefnd, ef það væri vilji Alþ., en óskaði, ef breyt. yrðu gerðar á frv., þá yrðu þær áður sendar heimspekideildinni til umsagnar.

Ég hef borið þetta undir þá meðnm. mína, sem ég hef náð til, og höfum við orðið sammála um, að naumast sé ástæða til lagabreyt., en ef d. sýnist svo, óska ég eftir, að það verði borið undir heimspekideildina.