25.02.1947
Efri deild: 80. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

111. mál, Háskóli Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Það er alger misskilningur, að hér sé um ný l. frá Alþ. að ræða, heldur er hér um beiðni að ræða frá umræddri deild um breyt. á núgildandi l. Ég er algjörlega andvígur því, að kennarar í deildinni dæmi einir um úrlausnir í þessum meistaraprófum, enda þótt slíkt sé gert í Danmörku. Það er aðeins í heimspekiprófi, sem hér er tekið eftir eins árs nám og er tiltölulega mjög lítils virði, að slíkur háttur er á hafður. Þótt í þessum meistaraprófum sé um sérstaka vísindaritgerð að ræða, þá verður ekki um það deilt, að sú ritgerð verður til óbeint undir handleiðslu þessara sömu kennara. Og í samanburði við aðrar deildir háskólans, t. d. lagadeildina, þá er það og hefur þótt sjálfsagt, að dómnefnd dæmdi þar um úrlausnir, sömuleiðis er með læknadeildina, enda tel ég það bæði eðlilegt og rétt, að hlutlausir prófdómendur dæmi um slíkt.

Ef einhverjir telja það óviðeigandi, að hlutlausir menn séu kvaddir til að dæma um meistarapróf, sem jafnframt eru viðurkenndir í sínu fagi, þá er þar um embættishroka að ræða, því að það setur á engan hátt blett á viðkomandi kennara. Ég vil því eindregið mælast til þess við n., að hún taki málið aftur til athugunar og fái því til vegar komið, að sömu reglu verði fylgt í þessu efni og við önnur próf innan háskólans, þ. e. að hafðir verði hlutlausir prófdómendur.