25.02.1947
Efri deild: 80. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

111. mál, Háskóli Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Það er einmitt vegna míns kunnugleika á þessu máli, að ég óska eftir breyt. á þessu frv., þar sem ég hef verið kennari við þessa stofnun í fjölda mörg ár. Ég tel, að það muni alveg nýtt og eigi ekki að líðast, að það sé komið undir geðþótta eins eða tveggja kennara að dæma og veita meistarapróf. Það voru orð 3. landsk. sjálfs, sem gáfu beinlínis tilefni til þess, er ég sagði um embættishroka.

Til þess að hægt sé að verða við beiðni heimspekideildarinnar um, að hún fái málið til nánari yfirvegunar, áður en á því eru gerðar breyt., óska ég eftir því, að n. taki málið á ný og athugi þetta atriði, sem ég hef bent á, og verði hún við þeirri ósk minni, mun ég ekki flytja brtt. á þessu stigi málsins.