27.11.1946
Efri deild: 21. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

40. mál, heimilisfang

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég bjóst við framsögu, en sé að svo er ekki, og vil ég því beina nokkrum orðum til n.

Þau l., sem þessi breyt. á við, frá 1936 eru bæði óljós og ófullkomin og þurfa mikilla breyt. við. Þetta er vitanlegt öllum og fyrst og fremst þeim, sem fást við manntal. Þegar gert er reglulegt manntal á 10 ára fresti. koma alltaf fram nokkur hundruð manns, sem ekki fyrirfinnast í hinum árlegu sálnaregistrum prestanna.

Skattanefndirnar vita, að á hverju ári eru nokkrir tugir, sem sleppa við öll gjöld, af því að þeir eiga hvergi lögheimili. Mig undrar, að ríkisstj. skuli ekki koma því í kring að breyta þessum l. svo að gagn sé að.

Nú situr n., sem á að athuga útsvarslögin. það var haft við orð í fyrra, að óhjákvæmilegt væri að breyta l. um heimilisfang, og bjóst ég því við, að hér væri eitthvað það á ferðinni, sem gagn væri að. og ég vil beina því til ríkisstj. og fá að vita, hvort ríkisstj. ætlar ekki að láta n., sem endurskoðar útsvarslögin, einnig endurskoða l. um heimilisfang, til þess að það sé tryggt, að allir eigi einhvers staðar heima og taki þátt í þeim byrðum, sem þjóófélagið leggur þeim á herðar, og njóti þess réttar, sem það veitir. En ef n. fær ekki þetta verkefni, þá vil ég beina því til þeirrar þingnefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, að gera þær breyt. á þessum l., sem gera þarf og allir eru sammála um, að gera þurfi, til að tryggja það, að allir eigi einhvers staðar heimili. Ég vil, að n. athugi þetta. En æskilegast væri, að mþn. fengi þessi mál til meðferðar.