05.03.1947
Efri deild: 85. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

67. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson) :

Herra forseti. Út af þeirri fsp. hæstv. dómsmrh., sem hann beindi til mín varðandi skyldu ráðh. til að svara fsp., vil ég taka það fram, að ég er sömu skoðunar og hann um þetta atriði. Ég tók það fram í framsöguræðu minni, að það gæti hæglega staðið stundum þannig á um einhver mál, að það væri með öllu útilokað fyrir ráðh. að gefa fullnægjandi efnissvar um málið. Það gæti t. d. verið á ferðinni þýðingarmikið eða viðkvæmt utanríkismál, og gæti það staðið gegn hagsmunum ríkisins að ræða það á Alþ. fyrir opnum dyrum. Teldi ég, þegar þannig stæði á, að ráðh. hefði fullkomlega orðið við þeirri skyldu, sem á honum hvíldi samkv. þingsköpum, ef hann lýsti því yfir, að þetta mál væri þannig vaxið, að um það væri ekki hægt að gefa fullnægjandi efnisupplýsingar, eins og sakir stæðu. — Hvað það atriði snertir, að ákvæði þessa frv. mundu ef til vill ganga nokkuð nálægt einstökum ákvæðum stjskr., finnst mér rétt, að hæstv. forseti kveði upp um það formlegan úrskurð, áður en atkvgr. fer fram um málið. Það er að sjálfsögðu það eina formlega rétta og öruggast að ganga þannig frá þessu í upphafi, til þess að ekki þurfi að koma upp deilur um það á eftir, að ákvæði stjskr. hafi verið brotin. Ég fyrir mitt leyti lít eins á þetta og hæstv. dómsmrh., að þau ákvæði, sem í frv. þessu felast, séu á engan hátt þannig vaxin, að hægt sé að segja, að þau brjóti á nokkurn hátt ákvæði stjskr. Sú venja, sem myndazt hefur um aðferðir og afgreiðslu þessara mála og afstöðu Sþ. til deilda, að því er varðar stjskr., hefur skapað þann réttargrundvöll og réttaröryggi, sem ætti að vera fyrir því, að heimilt væri að flytja þetta fyrirspurnarform inn í Sþ. Mér virðist einnig, að skilja megi ákvæði 54. gr. stjskr. og þau önnur ákvæði, sem leggja einhverjar skyldur á hendur ráðherra í þessum efnum, að þau séu alls ekki tæmandi. Alþ. getur, ef það sér ástæðu til, gengið lengra og lagt þeim á herðar frekari skyldu en ákvæði stjskr. mæla fyrir um, og þó að í 54. gr. kunni ekki að felast skylda fyrir ráðh. til að svara þeim fsp., sem fyrir hann kunna að vera bornar, þá virðist mér ekkert því til fyrirstöðu, að hinn almenni löggjafi geti beinlínis lagt þessa skyldu á herðar ráðh.