17.03.1947
Efri deild: 95. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

67. mál, þingsköp Alþingis

Forseti (ÞÞ) :

Því hefur verið skotið undir úrskurð minn, hvort frv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á þingsköpum Alþ., brjóti ekki í bág við 54. gr. stjskr.

Það hefur verið og er þingvenja, að þm. beri fram í Sþ. utan dagskrár munnlegar fsp. til ráðh., og sú rýmkun á fyrirspurnarrétti þm. hefur ekki sætt mótmælum. Frv. það, sem hér liggur fyrir, lögfestir þessa rýmkun, þó þannig, að fsp. séu skriflegar og prentaðar og vika liðin frá því, að þeim er útbýtt, þar til umr. fer fram. 54. gr. stjskr. gerir það að skilyrði fyrir, að ræða megi slíka fsp. til ráðh. í deildum, að d. leyfi hana, en nú liggur fyrir hér í d. brtt. við frv., um að leita skuli leyfis Sþ., áður en ræða megi þar slíkar fsp. Verði brtt. þessi samþ., virðist ekki ástæða til að hefta framgang frv. vegna árekstrar við 54. gr. stjskr., og verður því frv. til umr.